Dagur borðaði mat eldri borgara

Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur á hverjum degi þessa vikuna borðað matinn sem eldri borgarar geta pantað. Tekur Dagur fram að  hann borði vissulega allan venjulegan heimilismat og kvarti sjaldan en segir heimsenda matinn af bestu gæðum og lystugri en hann bjóst sjálfur við.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í vikulegum pistli borgarstjóra.

„Velferðarsvið og Eir leita nú leiða í matarmálum eldri borgara sem búa í Eirborgum í Grafarvogi. Vonast ég til að farsæl niðurstaða í því liggi fyrir á næstunni. Eftir umræðu síðustu viku lék mér forvitni á að vita hvernig heimsendi maturinn væri sem eldra fólki stendur til boða í borginni.

Ég hef því fengið hann sendan í ráðhúsið þessa viku. Þetta er matur sem er kældur og sendur í bökkum og maður hitar í örbylgjunni þegar manni hentar. Ég missti reyndar miðvikudaginn úr, en á mánudaginn var þessi fíni lax, á þriðjudaginn var svikinn héri í ráðhúsinu en ég fékk sendan hamborgarhrygg og súkkulaðibúðing með rjóma í eftirrétt og í gær voru kjötbollur, en reyktur lax í forrétt.

Ég borða að vísu allan venjulegan heimilismat og kvarta sjaldan en verð að segja að þessi heimsendi matur er af bestu gæðum og reyndar miklu lystugri og betri en ég bjóst nokkurn tímann við, eftir að hafa lesið alls kyns stóryrði um hann á netinu. Held að fæstir sem þannig tala hafi raunverulega smakkað hann.

Ég endaði svo vikuna á að fara í heimsókn í eldhúsið á Lindargötu sem eldar allan matinn og pakkar - til að þakka fyrir mig. Þar ræður Bragi kokkur ríkjum en hann hefur starfað hjá borginni í meira en 35 ár.

Allt skipulagið í eldhúsinu er til fyrirmyndar, hráefnið er gott og maturinn bragðast vel (fékk sviðasultu og rófustöppu í tilefni bóndadagsins). Ofan á gæðin er verðið lægra en gerist og gengur í nágrannasveitarfélögum. Ég tók myndir af hápunktum í máltíðum vikunnar - reyktur silungur, kjötbollur, hamborgarhryggur og ofnbakaður lax. Sjón er sögu ríkari,“ skrifar dagur.

Hápunktar vikunnar að mati Dags. Reyktur silungur, kjötbollur, hamborgarhryggur og …
Hápunktar vikunnar að mati Dags. Reyktur silungur, kjötbollur, hamborgarhryggur og ofnbakaður lax Ljósmynd/Dagur B. Eggertsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert