Vegum hefur víða verið lokað

Þjóðvegi 1 frá Hvolsvelli að Jökulsá á Breiðamerkursandi hefur verið lokað samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Einnig er búið að loka Sandskeiði, Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Lokað er á Fróðárheiði. Sama á við um Kjalarnes.

Óveður er á Reykjanesbraut. Hálka er á Suðurstrandarvegi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi en óveður upp við Gullfoss. Hálka, snjóþekja, skafrenningur, stórhríð og sumstaðar óveður er á Vesturlandi. Lokað er á Holtavörðuheiði sem og Fróðárheiði. Þæfingsfærð og snjókoma er á Útnesvegi og í Álftafirði og þungfært og stórhríð á norðanverðu Snæfellsnesi.

Hálka, snjóþekja, skafrenningur og stórhríð er á flestu leiðum á Vestfjörðum og víðast hvar snjókoma og skafrenningur. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og mjög hvasst og versnandi færð er í kringum Ísafjörð. Ófært er í Önundarfirði, á Gemlufallsheiði, Mikladal, Hálfdán, Kleifaheiði og Klettshálsi. Ófært er á Drangsnes. Lokað er á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og um Súðavíkurhlíð.

Hálka, snjóþekja, þæfingur, skafrenningur, stórhríð og sumstaðar óveður er á flestum vegum á Norðurlandi. Vegirnir um Vatnsskarð, Öxnadalsheiði og Víkurskarð er lokaðir. Ófært og stórhríð er á Grenivíkurvegi. Ófært og stórhríð er á Mývatnsöræfum og Hálsum. Veginum verður lokað um Siglufjarðarveg kl. 20:00.

Hálka, snjóþekja, skafrenningur og sumstaðar stórhríð er á flestum aðalleiðum á Austurlandi. Ófært og stórhríð er á Möðrudalsöræfum og Vatnsskarði eystra. Ófært er á Fjarðarheiði.

Þæfingsfærð, skafrenningur og éljagangur er með suðausturströndinni að Höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert