Ósátt við rýmingu

mbl.is/Þórður

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að rýma húsnæði í austurborginni um tvö leytið í nótt vegna hávaða frá gleðskap sem þar var. Gestirnir voru nokkuð ósáttir með afskipti lögreglu en ítrekað hafði verið kvartað undan hávaða frá partýinu.

Fyrsta kvörtunin barst skömmu fyrir hálf eitt í nótt og þegar lögregla kom á vettvang var töluverður fjöldi fólks að skemmta sér í húsinu. Lögreglan benti fólkinu á að nokkrar kvartanir hefðu borist og þeim gefinn hálftími til að rýma húsið og hætta með gleðskapinn. Um tvö var partýið enn í gangi og ákvað lögregla að rýma húsið en við litla hrifningu veislugesta.

Um miðnætti var lögreglu tilkynnt um mann sem var að vinna skemmdarverk á bifreið í vesturbænum. Ekki tókst að hafa hendur í hári skemmdarvargsins.

Tæplega tvö í nótt stöðvaði lögreglan ökumann sem var undir áhrifum fíkniefna undir stýri. Eins var hann sviptur ökuréttinum. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert