Slógust með kylfum og hamri

mbl.is/Eggert

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Ekki síst vegna fólks sem var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þannig var tilkynnt um hópslagsmál í Skeifunni í Reykjavík upp úr klukkan sex í gær þar sem notaðar væru kylfur og hamar. Fjórir karlmenn voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Einnig var tilkynnt um slagsmál klukkan rúmlega þrjú skammt frá Hallgrímskirkju í Reykjavík. Var karlamður í mjög annarlegu ástandi handtekinn í kjölfarið og vistaður í fangageymslu. Um klukkutíma síðar var tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði flaska verið brotin á höfði karlmanns og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Karlmaður var handtekinn og vistaður í fangageymslum vegna rannsóknar málsins.

Karlmaður var handtekinn klukkan rúmlega þrjú í Hafnarfirði grunaður um innbrot í bifreiðar og þjófnaði úr þeim. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu lögreglu. Ætluð fíkniefni fundust einnig á honum þegar komið var með hann á lögreglustöð.

Lögreglan hafði einnig afskipti af nokkrum fjölda ökumanna vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs. Einn slíkur var stöðvaður við Mjódd í Reykjavík klukkan rúmlega fjögur. Neitaði hann að segja til nafns og hafði ennfremur í hótunum við lögreglumennina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert