Ljósmæður fá 10 prósenta hækkun

Sjálfstætt starfandi ljósmæður hafa fengið launahækkun.
Sjálfstætt starfandi ljósmæður hafa fengið launahækkun. mbl.is/Kristinn

Sjálfstætt starfandi ljósmæður og Sjúkratryggingar Íslands hafa skrifað undir nýjan kjarasamning sem kveður á um 10 prósenta launahækkun.

„Við hefðum viljað sjá meiri hækkun en það var ekki hægt að ná lengra í þetta sinn,“ segir Bergrún Svava Jónsdóttir,  ljósmóðir.

Samningurinn gildir til janúarloka á næsta ári.

Ljósmæður ætluðu að hætta að sinna heimaþjónustu frá og með síðasta mánudagskvöldi ef samningar myndu ekki nást en fallið var frá þeim áformum.

Búið er að senda samninginn til samþykkis Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, og búist er við að hann skrifi undir fljótlega.

Alls eru 115 ljósmæður aðilar að rammasamningi  við Sjúkratryggingar Íslands og fá greitt samkvæmt honum fyrir heimaþjónustu við sængurkonur, nýbura og fjölskyldur þeirra. Einnig fá þær greitt fyrir aðstoð við heimafæðingar.

Ljósmæðurnar hafa verið með tæplega 3.800 krónur á tímann og höfðu þær vonast eftir því að talan færi yfir 5.000 krónur. Samkvæmt nýja samningnum munu þær þess í stað fá um 4.200 krónur á tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert