Andlát: Kristín Guðmundsdóttir

Kristín Guðmundsdóttir.
Kristín Guðmundsdóttir.

Kristín Guðmundsdóttir híbýlafræðingur lést í Reykjavík 10. febrúar sl. á 93. aldursári. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólaprófi í innanhússarkitektúr.

Á síðasta ári gaf Hið íslenska bókmenntafélag út bók um ævi og störf Kristínar og hlutverk hennar sem brautryðjanda í hönnun á Íslandi.

Kristín fæddist í Reykjavík 12. júní 1923, dóttir hjónanna Ragnhildar Jónsdóttur frá Hjarðarholti í Stafholtstungum og Guðmundar Kristins Guðmundssonar, skrifstofustjóra og eins stofnenda Olíuverslunar Íslands. Kristín lauk stúdentsprófi frá MR 1942. Veturinn á eftir stundaði hún teikninám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Kurt Zier. Á Jónsmessu 1943 sigldi Kristín í skipalest yfir Atlantshafið til Vesturheims, til að hefja nám í innanhúsarkitektúr í Chicago og New York. Í náminu sótti hún m.a. fyrirlestra Franks Lloyd Wright og var lærlingur hjá Walter Gropius.

Kristín útskrifaðist í híbýlafræði frá Northwestern háskóla árið 1946. Veturinn á eftir dvaldi hún í New York og var í verklegu námi við New York School of Interior Decoration. Eftir fimm ára útiveru hélt Kristín heim til Íslands í árslok 1947. Hún réð sig til Skipulags Reykjavíkur og starfaði þar 1948-53. Sinnti hún jafnframt ráðgjöf við skipulag og hönnun íbúða auk þess að flytja fjölda fyrirlestra um starfssvið sitt.

Árið 1953 giftist Kristín Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt (1914-1970), sem var einn umsvifamesti arkitekt landsins á sínum tíma. Starfaði hún náið með honum, jafnframt því sem hún sinnti sínum eigin verkefnum. Eldhús og aðrar innréttingar eftir Kristínu er að finna í flestum húsum Skarphéðins. Eftir lát Skarphéðins skipti Kristín alfarið um starfsvettvang og réði sig til Ferðaskrifstofunnar Útsýnar og starfaði þar í fjögur ár sem deildarstjóri í innanlandsdeild. Frá 1975 og til starfsloka starfaði Kristín hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar hafði hún m.a. umsjón með útgáfumálum og ráðstefnuhaldi á vegum stofnunarinnar. Þá kenndi hún á árunum 1967-1993 híbýlafræði við Hússtjórnarkennaraskólann.

Börn Kristínar og Skarphéðins eru Ragnhildur landslagsarkitekt, Kristinn Haukur dýravistfræðingur og Ögmundur arkitekt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert