Gunnar Bragi í Miðausturlöndum

Gunnar Bragi Sveinsson og Benjamin Netanyahu.
Gunnar Bragi Sveinsson og Benjamin Netanyahu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneyti Ísraels

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hóf í gær heimsókn sína til Miðausturlanda, en ráðherra heimsækir Ísrael, Palestínu og Jórdaníu í vikunni. Í dag fundaði ráðherra með Benjamin Netanyahu, forsætis- og utanríkisráðherra Ísraels.

Á fundinum fór Gunnar Bragi meðal annars yfir afstöðu Íslands til deilu Ísraels og Palestínu og ítrekaði mikilvægi þess að viðræður yrðu hafnar að nýju með tveggja ríkja lausn að leiðarljósi. Fordæmdi ráðherra ofbeldi og mannfall óbreyttra borgara á báða vegu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Þar segir einnig að ráðherrarnir hafi rætttvíhliða samskipti ríkjanna og gagnkvæman vilja til að styrkja þau frekar, m.a. með gerð loftferðasamnings, fjárfestingarsamnings og tvísköttunarsamnings og samstarfi á sviði nýsköpunar, en Ísraelar standa þar mjög framarlega.

Staða mála í Miðausturlöndum, þ.m.t. ástandið í Sýrlandi, var sömuleiðis til umfjöllunar, auk þess sem Gunnar Bragi varpaði ljósi á stöðu efnahagsmála á Íslandi og ræddi öryggishorfur í Evrópu, segir í tilkynningunni.

Gunnar Bragi heimsótti minnisvarðann vegna Helfararinnar og lagði blómsveig til minningar um fórnarlömb, en um 6 milljónir Gyðinga týndu lífi í Helförinni.

Á morgun heldur utanríkisráðherra til Palestínu og mun eiga fundi með ráðamönnum í Ramallah, þ.m.t. forsætisráðherra landsins, og kynna sér verkefni sem Ísland styður á Vesturbakkanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert