„Er barnið útskrifað?“

Leiðbeinendur munu aðstoða ferðamenn við að taka réttar ákvarðanir.
Leiðbeinendur munu aðstoða ferðamenn við að taka réttar ákvarðanir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að markaðsherferðin Iceland Academy taki vel á því sem rætt hefur verið um að skorti í ferðaþjónustunni. Hún var viðstödd fund sem Íslands­stofa boðaði til í morg­un um sam­starf og markaðssetn­ingu er­lend­is á ár­inu 2016. 

„Það snýst um upplýsingu og fræðslu um það sem má og það sem má ekki, hvað ber að varast, og hvernig við getum hvatt ferðamanninn til þess að koma hingað og njóta en um leið vera öruggan. Þannig að ég fagna þessari áherslu og held að hún sé afar vel tímasett og skipulögð miðað við þann stað sem ferðaþjónustan er á í dag,“ segir Ragnheiður Elín. 

„Þessi áhersla í herferðinni sýnir að það er verið að vinna að þessum öryggismálum. Þó svo að umræðan sé oft á þann veg að þetta sé eitthvað sem komi mönnum á óvart þá er það alls ekki þannig. En það þarf að vanda vel til þeirra aðgerða sem gripið verður til á sama tíma og við þurfum að bregðast við.“

Frétt mbl.is: Ný herferð nefnist Iceland Academy

Fundaði degi fyrir banaslysið

Öryggi ferðamanna hefur verið í umræðunni eftir banaslysið sem varð í Reynisfjöru á dögunum. Framkvæmd áhættumats á því svæði er þegar hafin. „Það var á teikniborðinu en við flýttum þeirri vinnu í ljósi þess hörmulega slyss sem varð í síðustu viku,“ segir Ragnheiður.

Deginum áður en banaslysið varð fundaði hún með lögreglustjóranum á Suðurlandi ásamt þingmönnum sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi, þar sem m.a. var rætt um öryggismál tengd ferðamennsku. „Þetta er eitthvað sem hefur verið á okkar borði og tillögur munu líta dagsins ljós um ýmsar aðgerðir sem við getum gripið til strax, ekki bara þar heldur almennt, að loknum fundi stjórnstöðvar ferðamála sem haldinn er í byrjun mars,“ segir hún.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Rósa Braga

400 milljóna króna samningur

Herferðin Iceland Academy kostar 400 milljónir króna. Samningur um verkefnið Ísland-allt árið var undirritaður fyrir tveimur árum og rennur hann út í lok þessa árs. Stjórnvöld leggja til allt að 200 milljónir á ári gegn jafn háu mótframlagi frá samstarfsaðilunum; Icelandair, Landsbankanum, Reykjavíkurborg og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Að sögn Ragnheiðar er vinna ekki farin af stað hvort og þá hvernig þessu samstarfi verður háttað næst. „Ég varpaði þeim bolta inn í salinn og spurði hvað mönnum finnst. Ég held að ég megi fullyrða að við erum tilbúin til samstarfs en við gerum þetta ekki ein.“

Var erfitt að fá samstarfsaðila

Í ræðu sem hún hélt í morgun talaði hún um að þegar síðasti samningur var settur saman hafi verið heldur erfitt að fá samstarfsaðila til að taka þátt í verkefninu. „Við fundum minni þörf hjá einkaaðilum og Reykjavíkurborg til að koma með okkur í þetta,“ sagði hún. „Núna þurfum við að ræða við Samtök ferðaþjónustunnar. Hvað ætlum við að gera við barnið á þessu stigi í þroskasögunni? Er barnið útskrifað eða ætlum við að halda áfram og nýta þennan slagkraft.“

Í ræðu sinni sagði hún einnig að ríkið hafi sett 2,4 milljarða króna í framkvæmdasjóð ferðamannastaða síðan hún tók við embætti. „Það er ekki nóg. Öll keðjan verður að virka.“

Frétt mbl.is: Umræða um innviði á villigötum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert