Íslenskur togari skotinn í kaf í S-Afríku

Harvest Bettina (áður Birtingur NK) í höfn í Saldanha Bay …
Harvest Bettina (áður Birtingur NK) í höfn í Saldanha Bay skömmu áður en skipinu var lagt. (Birt með leyfi Óskars Franz og Síldarvinnslunnar) Ljósmynd/Jaco Louw

Örlög togarans Birtings sem var í eigu Síldarvinnslunnar fram til ársins 1992 verða að teljast óhefðbundin í samanburði við aðra íslenska togara.

Norðfirðingurinn Gísli Gíslason hefur nú aflað upplýsinga um Birting eftir að togarinn komst í eigu suður-afríska fyrirtækisins Sea Harvest.

Fjallað er um málið á vef Síldarvinnslunnar.

Þar kemur fram að eftir að Birtingur var seldur til Sea Harvest árið 1992 hafi hann verið gerður út til hvítfiskveiða. Togaranum var lagt árið 2009 og átti að selja hann í brotajárn. Suður-afríski sjóherinn hafði þá samband við brotajárnsfyrirtækið og spurðist fyrir um hvort þýski sjóherinn gæti fengið skipið en ætlunin væri að nota það sem skotmark á heræfingu.

Sjóhernum varð að ósk sinni og úr varð að Birtingur var dreginn á heræfingarsvæði austur af Cape Agulhas, syðsta odda Afríku. Á heræfingunni var Birtingur, sem þá hafði fengið nafnið Betti, skotinn í kaf en ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega hvenær heræfingin fór fram á árinu 2009.

Segja verður að örlög gamla Birtings séu sérstök og ekki er vitað til þess að annað skip sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar hafi horfið úr sögunni með jafn dramatískum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert