Kvikmyndaskólinn vill í Kópavog

Ármann Kr. Ólafsson er ánægður með tilboð Kvikmyndaskóla Íslands.
Ármann Kr. Ólafsson er ánægður með tilboð Kvikmyndaskóla Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Fyrir sjálfan mig finnst mér þetta mjög spennandi og óhætt að segja að þetta passar vel fyrir menningartorfuna sem bæjarskrifstofurnar standa á að fá Kvikmyndaskólann í það umhverfi,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, um kauptilboð sem barst bænum frá Kvikmyndaskóla Íslands um kaup skólans á húsnæði bæjarins við Fannborg 2, 4 og 6.

Tilboðið var lagt fyrir bæjarráð í fyrradag og því vísað til bæjarstjórnar sem tekur málið fyrir á fundi sínum næsta þriðjudag.

„Hér er mjög áhrifamikil og frumleg hugmynd á ferð sem mun efla mannlíf í bænum, styðja við þjónustu og menningarstarfsemi bæjarins,“ segir í tilboðinu og aðgerðin sé til þess fallin að styrkja Kópavog sem skólabæ.

300 manna samfélag fylgir

Kaupverðið er 700 milljónir króna og fyrsta greiðsla áætluð þann 15. mars 2016 að upphæð 400 milljónir króna. Samið yrði um eftirstöðvar til einhverra ára með hagkvæmum vöxtum, segir í tilboðinu.

„Verðið sem þarna er nefnt er hærra en við gengum út frá í okkar útreikningum,“ segir Ármann en bæjarstjórn hefur íhugað í nokkurn tíma að selja Fannborg 2-6.

„Það verður spennandi að taka þessa umræðu á þriðjudaginn,“ bætir hann við en ekki sé hægt að segja til um hvort tilboðinu verði tekið en margir bæjarfulltrúar séu spenntir.

Skólanum mun fylgja rúmlega þrjú hundruð manna samfélag og telur Ármann að það sé til þess fallið að efla Hamraborgina til muna.

Í tilboðinu er tekið fram að tímapressa sé á því að ákvörðun verði tekin þar sem skólinn þurfi að hefja starfsemi sína í Fannborg á komandi hausti, 2016.

„Það er ljóst að ef þetta gengur ekki hratt fyrir sig þá getur þetta ekki orðið,“ segir Ármann en bæjarstjórn sé líka háð því að finna nýtt húsnæði fyrir starfsemi sína sem nú fer fram í Fannborg 2-6. 

Flytji í gamla Kópavogshælið? 

Á fundi bæjarráðs í vikunni voru lagðar fram teikningar frá bæjarstjóra af tillögu arkitekta að nýjum bæjarstjórnarskrifstofum í húsakynnum gamla Kópavogshælisins ásamt kostnaðaráætlun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert