Málin flóknari en við fyrstu sýn

Meðferð málanna í stjórnsýslunni var mótmælt við innanríkisráðuneytið í gær.
Meðferð málanna í stjórnsýslunni var mótmælt við innanríkisráðuneytið í gær. mbl.is/Styrmir Kári

Mál hælisleitendanna þriggja, sem vísa átti úr landi aðfaranótt fimmtudags, eru lögfræðilega snúin og á þeim eru margir fletir sem þarf að kanna. Þetta segir dr. Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála.

Nokkr­ir tug­ir manna komu saman við innanríkisráðuneytið í gær til að lýsa yfir stuðningi við hæl­is­leit­end­urna, en þar til seint á miðvikudagskvöld stóð til að vísa þeim úr landi aðfaranótt fimmtudags.

Í samtali við mbl.is segir Hjörtur nefndina ekki hafa rætt um hvort málin hljóti flýtimeðferð.

„Við höfum ekki tekið ákvörðun um það en þessa dagana erum við að fá mikinn fjölda mála á okkar borð. Mér sýnist sem Útlendingastofnun muni ekki biðja um flutning mannanna fyrr en við höfum afgreitt málin og því er þetta ekki svo áríðandi að flýtimeðferð þurfi til,“ segir Hjörtur og bætir við að nefndin afgreiði jafnan beiðnir um endurupptöku á fjórum til sex vikum.

Á síðustu tveimur mánuðum ársins 2015 var meðaltími meðferðar Dyflinnarmála hjá nefndinni 144 dag­ar.

Umfjöllun mbl.is: Elsta málið 714 daga gamalt

Frá mótmælunum við innanríkisráðuneytið. Hjörtur Bragi segir málið ekki vera …
Frá mótmælunum við innanríkisráðuneytið. Hjörtur Bragi segir málið ekki vera jafn einfalt og sýnst gæti. mbl.is/Styrmir Kári

Kröfur heyrst um beitingu 4. mgr. 12.f.

Fram hefur komið að mennirnir sem um ræðir hafi dvalið hér á landi í þrjú til fjögur ár. Vegna þess hafa heyrst kröfur um að í máli þeirra verði beitt ákvæði 4. málsgreinar í lagagrein 12.f. í lögum um útlendinga.

Þar segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi ef hann uppfyllir skilyrði a–e-liðar 1. málsgreinar lagagreinarinnar 12.g., ef hann hefur dvalið hér á landi í tvö ár hið minnsta vegna málsmeðferðar stjórnvalda um umsókn um hæli.

Hjörtur Bragi segir að málið sé ekki svo einfalt, enda þurfi skilyrði a-e liðar að vera uppfyllt eins og áður segir.

„Ef um Dyflinnarmál er að ræða, þá er skilyrði d-liðar þeirrar málsgreinar ekki uppfyllt,“ segir Hjörtur, en skilyrðið lýtur að því að ekki liggi þegar fyrir beiðni um að annað ríki taki við hælisleitandanum á ný.

Frétt mbl.is: Framsendu ekki erindið á réttan stað

Einn flötur er á málinu til viðbótar að sögn Hjartar.
Einn flötur er á málinu til viðbótar að sögn Hjartar. mbl.is/Styrmir Kári

Heimild til að víkja frá skilyrðinu

„Almennt séð myndi þessi undantekning, sem felst í 4. málsgrein 12.f., því ekki eiga við í Dyflinnarmálum,“ segir Hjörtur. „En svo, til að flækja þetta aðeins meira, þá er í annarri málsgrein 12.g. heimild til að víkja frá því skilyrði ef sérstaklega stendur á. Sá möguleiki er fyrir hendi og lögfræðilega er þetta mál því svolítið snúið.“

Hann segir enn annan flöt vera á þessu máli til viðbótar.

„Þetta er ákvörðun Útlendingastofnunar sem búið er að staðfesta af innanríkisráðuneytinu, héraðsdómi og Hæstarétti. Af þeim sökum þarf líka að skoða það vandlega, hvort kærunefndin geti fjallað um slíkar endurupptökubeiðnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert