Blöskrar viðbrögð forsætisráðherra

Laugarvatn.
Laugarvatn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nönnu Elísu Jakobsdóttur, formanni Landsambands íslenskra stúdenta og fulltrúa stúdenta í háskólaráði, blöskrar viðbrögð sumra þingmanna og forsætisráðherra í kjölfar ákvörðunar ráðsins um að flytja nám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur.

Forsætisráðherra sagði í Facebook-færslu vera hætt við því að ákvörðun HÍ um að leggja af nám á Laugarvatni mundi gera út af við hugmyndir um sameiningar eða aukið samstarf HÍ við menntastofnanir á landsbyggðinni. Það myndi væntanlega kalla á að fjárveitingum yrði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum. 

„Mér blöskraði þessi viðbrögð því mér finnst þetta svo mikil eiginhagsmunasjónarmið sem ganga fyrir hagsmunum nemendanna og menntakerfisins í heild,“ segir Nanna Elísa.  „Ég bjóst ekki við því að viðbrögðin yrðu svona harkaleg og einstrengingsleg.“

Mikil vinna að baki ákvörðuninni

Hún segir mikla vinnu hafa legið að baki ákvörðuninni. „Við vorum búin að ræða þetta á síðustu sex fundum ráðsins. Upphaflega var kynnt fyrir okkur vel unnin og flott skýrsla þar sem voru dregin fram öll sjónarmið, líka sjónarmið Suðurkjördæmis, þingmanna þaðan, starfsfólks og nemenda. Þessi skýrsla gaf mjög heildstæða yfirsýn yfir allt saman. Á þeim fundi var ákveðið að mynda starfshóp sem fór aftur í þetta mál, skoðaði það enn betur og gerði kostnaðargreiningu, þannig að þetta var mjög vel ígrunduð ávörðun,“ segir hún.

Nanna Elísa Jakobsdóttir.
Nanna Elísa Jakobsdóttir. ljósmynd/Silja Rán

Óhjákvæmilegt að færa námið

Þegar Nanna las skýrsluna segist hún hafa séð svart á hvítu að það hafi ekki gengið að hafa námið lengur á Laugarvatni. Óhjákvæmilegt hafi verið að færa það til Reykjavíkur. „Það hefði kostað um 300 milljónir að lagfæra alla aðstöðu en það sem mér fannst skipta mestu máli var að nemendurnir voru ekki að fá eins góða kennslu og þeir gætu fengið. Einnig ætlar Háskólinn á Akureyri líkast til að bjóða upp á sambærilegt nám og þá myndi fækka ennþá meira í nemendahópnum.“

Frétt mbl.is: Funda með nemendum á Laugarvatni

Snýst ekki um landsbyggðina gegn höfuðborgarsvæðinu

Henni finnst leiðinlegt að geta ekki haldið uppi þessu námi á landsbyggðinni. Ekki megi samt stilla málinu upp sem landsbyggðinni gegn höfuðborgarsvæðinu. „Ég er komin með mikinn leiða á því. Það færir okkur ekki áfram í áttina að betri menntun og betra kerfi. Mér finnst mikilvægt að efla menntun á landsbyggðinni en mér finnst þessi ákvörðun ekki eiga að þýða að háskólamenntun geti ekki þrifist annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún og vonar að meira fjármagn verði lagt í háskólakerfið í heild sinni.

Þarf að byggja upp í sameiningu

Háskóli Íslands kom fram með þá hugmynd að hafa rannsóknarsetur og aðstöðu fyrir staðlotukennslu á Laugarvatni. Til þess myndi þurfa fjármagn frá ríkinu. „Mér fannst það frábær lending og hefði búist við því að þingmenn og hagsmunaaðilar myndu taka því fagnandi  að byggja eitthvað upp í sameiningu í staðinn fyrir þetta nám. Vonandi verður það að veruleika.“

Mér hefur blöskrað svo viðbrögð sumra þingmanna og forsætisráðherra okkar í kjölfar þessarar ákvörðunar. Ég sit í háskó...

Posted by Nanna Elísa Jakobsdóttir on 23. febrúar 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert