Píratar deila hart á Facebook

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deilur brutust út á milli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns og þingflokksformanns Pírata, og Ernu Ýrar Öldudóttur, formanns framkvæmdaráðs Pírata, á spjallsvæði flokksins á Facebook í gær en sú síðarnefnda vændi Birgittu um að taka sér ítrekað titil formanns og leiðtoga flokksins á opinberum vettvangi án þess að hafa til þess umboð eða heimild í lögum Pírata.

Viðbrögð Birgittu við gagnrýninni voru hörð. „Í fyrsta lagi þá hef ég aldrei sagt við blaðamenn að ég sé kapteinn eða formaður. Ég hef ekki tíma til að eltast við blaðamenn til að leiðrétta rangfærslur sem eru mjög miklar og ítrekað og hef fyrir löngu gefist upp á að reyna það. Sú óvild og niðurrif sem ég hef orðið ítrekað fyrir frá þinni hendi er ómaklegt og virkilega særandi,“ sagði hún og bætti síðar við að „þrátt fyrir að hafa þykkan skráp að þá er þetta eilífa niðurrif að byrja að hafa djúpstæð áhrif.“

Aðspurður um innanflokksdeilur sem brutust út á spjallsvæði Pírata á Facebook í gær segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður og varaþingflokksformaður Pírata, það eðlilegt, augljóst og sjálfstagt mál að klofningur gæti orðið í flokknum. „Ég kýs að hafa ekki áhyggjur af því,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

„Mér finnst það skjóta skökku við að manneskja í valdastöðu, sem í þokkabót hefur opinberlega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið, taki þessu svona og upplifi sjálfa sig í fórnarlambshlutverki,“ segir Helgi Hrafn þó aðspurður um deilurnar og viðbrögð Birgittu. Þá telur hann á hreinu að takast þurfi á við þá skynjun sem virðist vera á meðal flokksmanna um að einhverjir taki að sér leiðtogahlutverk. „Mikilvægt er að við ræðum það“

Þá segir Helgi að þingmenn þurfi að vera þess megnugir að taka gagnrýni þó hún sé harkaleg, óbilgjörn og ómálefnaleg á köflum. Flokksmenn séu eðlilega á varðbergi fyrir því sem þeir upplifi sem „formannstakta“ þar sem stefna flokksins sé að vera ekki með leiðtoga.

Helgi Hrafn Gunnarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert