Sölubann í verslunum næsta skref?

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi  Rio Tinto á Íslandi, er að vonum óánægður með niðurstöðu Félagsdóms um að verkfall megi hefjast í álverinu í Straumsvík á miðnætti.

„Ég hygg að atvinnulífið standi frammi fyrir ansi fjölbreyttri flóru nýstárlegra verkfalla. Það er spurning hvort það verður ekki næsta skref að starfsmenn verslana setji á sölubann. Mæti til vinnu og sinni öllum störfum og ætlist til að fá greitt fyrir það en selji enga vörur. Ég öfunda ekki atvinnulífið af því,“ segir Ólafur Teitur.

Frétt mbl.is: Verkfallið mun hefjast á miðnætti

Huga að því að draga úr framleiðslu

„Það er alvarlegt ef við getum ekki selt okkar vörur um ófyrirséðan tíma því verkfallið er ótímasett. Það sér hver í hendi sér að það hefur ekkert upp á sig að framleiða ef það er ekki hægt að selja. Ef það verður staðan þurfum við að huga að því að draga úr framleiðslu okkar.“

„Ábyrgðin liggur hjá þeim“

Ólafur segir að ekkert bendi til þess að verkalýðsfélög starfsmanna álversins muni linast í sinni afstöðu.  „Deilan hefur, eins og alþjóð er kunnugt,  strandað á því að verkalýðsfélögin þvertaka fyrir að ISAL fái að sitja við sama borð og aðrir varðandi heimildir til útvistunar á verkefnum,“ segir hann. „Við buðum sömu launahækkanir og allir aðrir hafa boðið og gott betur. Þetta afþökkuðu verkalýðsfélögin til að koma í veg fyrir að ISAL sæti við sama borð og aðrir varðandi verktaka. Ábyrgðin liggur því alfarið hjá þeim,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Rio Tinto þarf að hugsa sinn gang

Sárt að heyra gagnrýni stjórnmálamanna

Ólafur segir ákvörðun Félagsdóms hafa komið sér á óvart. „Við höfum verið mjög stolt af okkar samskiptum við starfsmenn. Við höfum greitt góð laun, við höfum útvegað fríar ferðir til og frá vinnu, við útvegum frítt fæði, bjóðum starfsfólki upp á frítt nám sem er metið sem hálfur framhaldsskóli og tryggir fólki umtalsverða kauphækkun. Við höfum fengið starfsmenntaverðlaun og jafnréttisverðlaun og verið í fremstu röð að mörgu leyti hvað þetta varðar. Okkur þykir sárt að tilteknir stjórnmálamenn telji ástæðu til að gagnrýna okkar framkomu við starfsmenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert