Samskiptin eins og í ofbeldissambandi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar mig hefur langað að ræða þetta hef ég fundið þennan ótta, sem ég kannast við úr ofbeldissambandi, að geta ekki talað um það sem mér liggur á hjarta af ótta við að afleiðingarnar verði hreint út sagt hræðilegar. Ég er haldinn þessum ótta núna en mér finnst við verða að tala um þetta,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook þar sem hann ræðir um samskiptavandamál sem hann segir vera fyrir hendi innan flokksins.

Frétt mbl.is: Píratar deila hart á Facebook

Helgi segist með skrifum sínum vilja útskýra hvers vegna hann hafi í gær á sama vettvangi sakað Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata um róg í garð annarra. Ummælin hans komu í kjölfar deilna á Pírataspjallinu á milli Birgittu og Ernu Ýrar Öldudóttur, formanns framkvæmdaráðs Pírata, þar sem Erna sakaði Birgittu um að titla sig formann flokksins í fjölmiðlum án þess að hafa til þess umboð. Birgitta sagði á móti að það hafi ekki verið að hennar frumkvæði. Sakaði Birgitta Ernu um ítrekaða óvild í sinn garð og elíft niðurrif sem væri ómaklegt, særandi og væri varið að hafa djúpstæð áhrif.

„Mér finnst það skjóta skökku við að manneskja í valdastöðu, sem í þokkabót hefur opinberlega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið, taki þessu svona og upplifi sjálfa sig í fórnarlambshlutverki,“ sagði Helgi Hrafn í gær sem viðbrögð við skrifum Birgittu. Í skrifum sínum nú segist hann hafa látið ummælin falla í nokkurri biturð. Forsaga málsins væru ásakanir Birgittu í garð ungs manns um að hann vildi beita sér fyrir því að frjálshyggjumenn tækju yfir Pírata. 

Tilraunin til að vera án formanns mistekist

Helgi segir Birgittu hafa sett ásakanir sínar fram í gríðarlegum aðstöðumun gagnvart unga manninum þar sem hún væri þingmaður Pírata. Honum þyki leitt hafi hann þótt ómálefnalegur en hann hafi ekki getað látið eins og það væri í lagi hvernig umræðan innan flokksins hefði verið að þróast. „Mér finnst við þurfa að gera það upp.“ Þá ræðir Helgi einnig um formannshlutverkið innan Pírata. Tilraun til þess að vera án leiðtoga hafi mistekist að hans mati.

Frétt mbl.is: Vill frjálshyggjumenn úr Pírötum

„Tilraun okkar til þess að vera án formanns var tilraun til þess að valdefla hinn almenna félagsmann á kostnað valds að ofan. Það er mitt mat eftir að sitja á þingi í þrjú ár að þessi tilraun hafi mistekist vegna þess að hún leiðir ekki af sér raunverulegt leiðtogaleysi, heldur gerir það að verkum að leiðtoginn ákvarðast af reynslu, starfsaldri og slíku. En myndum við setja í lög okkar að sá reynslumesti eða með hæsta starfsaldurinn ætti að ráða meiru? Varla. Það er hinsvegar raunin sem við búum við í dag,“ segir hann.

Helgi Hrafn gagnrýnir Birgittu í skrifum sínum fyrir að hafa lýst því yfir að hún ætlaði að gefa áfram kost á sér sem þingmaður til þess að koma í veg fyrir að frjálshyggjumenn tækju yfir Pírata, en hún hafði áður fyrir síðustu þingkosningar sagt engum hollt að sitja lengur á þingi en tvö kjörtímabil í einu. Yfirstandandi kjörtímabil er hennar annað kjörtímabil á þingi. Helgi segir að ræða þurfi fyrirkomulag formennsku í flokknum. Vald hverfi ekki við það að vera ekki skilgreint. Hugsanlega sé betra að hafa það skilgreint til að hafa stjórn á því. Sjálfur hafi hann hins vegar ekki áhuga á formennsku í Pírötum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert