Þurfa konur að bíða til 2039?

Gestir Þjóðhátíðar sáu ekki margar konur á sviðinu í fyrra.
Gestir Þjóðhátíðar sáu ekki margar konur á sviðinu í fyrra.

Eftir að ljóst varð hverjir munu semja og flytja Þjóðhátíðarlagið í ár hefur val Þjóðhátíðarnefndar verið gagnrýnt töluvert. Lagið verður samið af tón­list­ar­mann­in­um Hall­dóri Gunn­ari Páls­syni, kór­stjóra Fjalla­bræðra, en Sverr­ir Berg­mann og Friðrik Dór munu syngja lagið.

Af nöfnunum má greina að þarna eru einungis karlmenn á ferð og við nánari rýni virðist sem aðeins hafi tvær konur komið að gerð Þjóðhátíðarlags frá því árið 1933. Herdís Schopka og Gísli Ásgeirsson rituðu grein í vefritið Knuz.is fyrr í dag þar sem þau fara ítarlega yfir flytjendur allt frá því ártali.

Segir þar að alls hafi 38 lagahöfundar og 36 textahöfundar komið við sögu. Þar af megi aðeins finna tvær konur, þær Sigurbjörgu Axelsdóttur, sem samdi textann við Eyjasyrpu árið 1972, og Jórunni Emilsdóttur Tórshamar, sem samdi textann við „Í Herjólfsdal“ árið 2004.

Næsta kona gæti verið ófædd

Enn fremur segir þar að sé miðað við þessa tölfræði, þar sem 39 ár líða frá því fyrsta lagið er samið þar til fyrsta konan kemur við sögu og svo aftur 32 ár, muni næsta kona fá að spreyta sig í kringum árið 2039.

„Sú kona gæti hæglega verið ófædd enn. Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá Vestmannaeyingum!“ segir svo að lokum og má þar eflaust greina hæðni hjá höfundunum tveimur. Neðst í fréttinni má sjá lista yfir höfunda Þjóðhátíðarlaga frá árinu 1992.

Í hinni margfrægu brekku í Herjólfsdal.
Í hinni margfrægu brekku í Herjólfsdal.

„Tökum þessu með jafnaðargeði“

Í samtali við mbl.is segir Hörður Orri Björgvinsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, að nefndin kippi sér lítið upp við þessa gagnrýni sem heyrst hefur.

„Þetta er svo sem ekkert öðruvísi en undanfarin ár. Þetta er einhver umræða sem virðist koma upp alltaf einu sinni á ári og virðist alltaf vera bara tengd við Þjóðhátíð en engar aðrar skemmtanir. Þannig að við tökum þessu bara með jafnaðargeði,“ segir Hörður.

„Þessi umræða talar bara sínu máli. Það er bara ágætt að fólk hafi skoðanir á Þjóðhátíð og veiti þessari hátíð athygli.“

Aðspurður segir hann að engir aðrir flytjendur hafi komið til greina fyrir Þjóðhátíðarlagið í ár.

„Vinsælustu skemmtikraftarnir hverju sinni“

En verða kvenkyns flytjendur á hátíðinni?

„Já, það verða kvenkyns flytjendur á Þjóðhátíð, ég get staðfest það. Reyndar á eftir að tilkynna það og við erum svo sem ekki komin langt í því að tilkynna listamenn á hátíðinni. Það á eftir að koma inn.“

Þá segir hann að til greina hafi komið síðustu ár að flytjendur Þjóðhátíðarlagsins verði kvenkyns.

„Það hefur alveg verið í umræðunni en það hefur ekki gerst núna síðustu ár. Þjóðhátíðarnefnd sest niður og velur vinsælustu skemmtikraftana hverju sinni og þá sem nefndin telur henta hátíðinni best.“

Stuðmenn eru á meðal þeirra sem haldið hafa uppi stuðinu …
Stuðmenn eru á meðal þeirra sem haldið hafa uppi stuðinu í Herjólfsdal.

Nefndin skeyti engu um gagnrýnina

„Þetta er eins og við var að búast, því miður,“ segir Védís Hervör Árnadóttir, tónlistarkona og formaður Kítón, félags kvenna í tónlist.

„Þjóðhátíðarnefnd hefur jafnan gefið lítið fyrir jafnréttisumræðu í þessu samhengi. Þá vill það oft vera þannig, þegar maður fer að rýna í tónlistarheiminn, að hann eigi einhvern veginn að vera æðri og undanskilinn þessari umræðu.“

Védís segir að vonandi muni nefndin íhuga þessa ákvörðun betur í framtíðinni.

„En þeir skeyta engu um þessa gagnrýni. Til að hefja umræðuna á góðum nótum og með skilningi þá þurfa þeir í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta skipti máli. Það hafa þeir hingað til ekki gert og þar held ég að við séum ósammála.

Þeir ætla ekkert að rýna í þetta frekar, þrátt fyrir að staðreyndir og tölur styðji við að þetta ætti að vera öðruvísi. Þó að þeir telji sig einkaaðila á margan hátt þá þurfa þeir eins og aðrir að taka þessa ábyrgð til sín alla leið.“

Frá Þjóðhátíð í Eyjum.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum.

„Er þessi ekki nógu góður?“

Védís tekur fram að halda þurfi því til haga að gagnrýnin sé óháð því góða fólki sem valið sé til að semja Þjóðhátíðarlagið hverju sinni og þeim sem flytja lög á hátíðinni.

„Einhverjir taka þetta persónulega og svörin eru á þessa leið: „Ertu að segja að þessi sé ekki nógu góður?“ Það er ekkert þannig, við lifum bara í samfélagi sem þarf markvisst að fara að taka á þessum málum á öllum vígstöðvum, þar á meðal í listaheiminum.“

Miðað við taln­ingu mbl.is á skemmtikröftum Þjóðhátíðar í fyrra voru þeir alls 131 talsins, 92 karl­ar og 39 kon­ur. Þá var meirihluti kvennanna í kór Landa­kirkju og í Lúðrasveit Vest­manna­eyja, eða 35 kon­ur.

Hlut­föll­in skekkjast því enn frek­ar ef kór­inn og lúðrasveit­in eru ekki tal­in með, 77 karl­ar og fjór­ar kon­ur. Þegar kór­inn og lúðrasveit­in voru tek­in úr jöfn­unni voru kon­urnar því ekki nema 4,9% skemmtikrafta.

Frétt mbl.is: „Konur skemmta á einn eða annan hátt“

„Það eru engar afsakanir“

Spurð út í þau ummæli Harðar, að nefndin velji vinsælustu tónlistarmennina hverju sinni, segir Védís að sú fullyrðing heyrist á hverju ári.

„Það er allt morandi í hæfum tónlistarkonum sem eru mjög framarlega á sínu sviði. Svo má líka pæla í því hvort nefndin telji að þeim sem þessa hátíð sækja sé ekki sæmandi sú tónlist sem konur í dag eru að spila?“

Hún segir markhóp Þjóðhátíðar kannski ólíkan þeim sem hátíðirnar Secret Solstice, Iceland Airwaves eða Aldrei fór ég suður höfða jafnan til.

„Kannski eru þeir að reyna að taka mið af því og þá endar þetta svona hjá þeim. En við erum með tónlistarkonur sem eru mjög vinsælar og ná þvert á alla markhópa. Það eru engar afsakanir. Þeir hafa allt með sér til að endurskoða þetta og pæla í þessu og þeir þurfa ekkert að fara upp á afturlappirnar þó að þetta sé í umræðunni. Það er bara verið að hjálpa þeim.“

Í umfjöllun Knuz.is má sjá neðangreindan lista yfir höfunda Þjóðhátíðarlaga frá árinu 1992. Nafn einu konunnar, Jórunnar Emilsdóttur Tórshamar, er rauðmerkt til upplýsingar.

Skjáskot/Knuz.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert