Sýna flóttamönnum samstöðu á Lækjartorgi

Fundurinn hefst á Lækjartorgi en svo verið gengið niður að …
Fundurinn hefst á Lækjartorgi en svo verið gengið niður að höfn.

Í dag munu Evrópubúar safnast saman í borgum og bæjum víðsvegar um álfuna og krefjast þess að yfirvöld virði mannréttindi fólks á flótta undir yfirskriftinni Safe Passage. Ísland er engin undantekning og munu þátttakendur hittast við Lækjartorg klukkan 14 og ganga saman niður að höfn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Á Lækjartorgi munu Nazarinn Askari og Toshiki Toma halda erindi. Nazanin Askari er pólitískur flóttamaður og öflug baráttukona fyrir mannréttindum. Hún flúði heimaland sitt og fékk hæli á Íslandi. Toshiki Toma er prestur innflytjenda. Hann hefur lengi starfað náið með hælisleitendum og hefur mikla innsýn í aðstæður fólks á flótta.

Eftir að þau hafa lokið máli sínu verður gengið niður að höfn þar sem fram fer kyrrðarstund í minningu þeirra fjölmörgu sem látið hafa lífið við að leita skjóls í Evrópu.  Við hvetjum fólk til að mæta með blóm og heiðra vota gröf þeirra sem aldrei náðu landi.

Krafa fundarins er að evrópskir valdhafar, þar með talin íslensk stjórnvöld, taki höndum saman og tryggi fólki í leit að vernd örugga leið inn í Evrópu.

Myllu­merkið #sa­fepassa­ge er yf­ir­skrift sam­stöðufund­arins og stendur það yfir eftirfarandi atriði:

  • #safepasssage þýðir að tryggja öruggar og löglegar leiðir inn í álfuna: ekki fleiri dauðsföll við landamæri Evrópuríkja!
  • #safepasssage þýðir að tryggja vernd og skjól fyrir fólk á flótta í Evrópu
  • #safepasssage þýðir að tryggja mannsæmandi móttökur og réttláta málsmeðferð fólks sem leitar alþjóðlegrar verndar í Evrópu, að persónulegar eigur flóttafólks verði aldrei gerðar upptækar, að tryggt verði að fjölskyldur geti sameinast eins fljótt og auðið er og að veittur sé viðeigandi stuðningur til fullrar samfélagsþátttöku um leið og málsmeðferð lýkur.
  • #safepassage þýðir að alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindi og réttindi fólks á flótta séu virtir.

Í tilkynningunni segir að kröfur þessar eru mjög brýnar nú þegar ljóst er að lönd Evrópu eru ýmist að draga til baka vilyrði sín til að taka við flóttafólki eða herða innflytjendalög sín enn frekar. Jafnframt hafa Evrópulönd ekki getað fundið sameiginlega lausn á því hvernig veita má flóttafólki skjól og grípa til þess ráðs að herða landamæraeftirlit og senda herlið til að sjá til þess að flóttafólk komist ekki inn fyrir landamæri Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert