Bjartsýnn fyrir hönd Hlífar

Útskipun á áli við Straumsvíkurhöfn.
Útskipun á áli við Straumsvíkurhöfn. Árni Sæberg

Lögfræðingar verkalýðsfélagsins Hlífar hafa frest til klukkan þrjú í dag til að skila greinargerð til sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu vegna lögbannskröfu Rio Tinto Alcan á Íslandi. Fyrirtækið telur að rúmlega þrjátíu manns megi ganga í störf verkafólks sem er í verkfalli en félagsmenn Hlífar eru ekki á sama máli.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, reiknar með að málið verði tekið fyrir hjá sýslumanni síðdegis í dag og að úrskurður liggi fyrir í kjölfarið.

Flutningaskip liggur við bryggju í Straumsvíkurhöfn og er verið að ljúka við að lesta aðföngum úr því.  Því mun ljúka um fjögurleytið í dag og segir Kolbeinn að verkfallsverðir muni standa vaktina á bryggjunni til að gæta þess að ekki verði gengið í störf verkamanna sem eru í verkfalli.

Hlíf lítur svo á að þrír yfirmenn megi ganga í störfin en fyrirtækið telur að það séu rúmlega þrjátíu manns, yfirmenn auk forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnar.  

„Ég tel að við séum með niðurstöðu úr félagsdómi,“ segir Kolbeinn, aðspurður um hvort hann sé bjartsýnn um að málið fari Hlíf í hag. Fyrirtækið kærði væntanlega vinnustöðvun félagsmanna Hlífar og meðfylgjandi útflutningsbanni á áli til dómsins en svo fór að félagið var sýknað og vinnustöðvun hófst. Segist hann vera bjartsýnn um að niðurstaðan verði Hlíf í hag. 

Frétt mbl.is: Komu til að herða hnútinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert