Var yfirbugaður með varnarúða

AFP

Karlmaður var handtekinn í versluninni Lyfju í Smáralind í Kópavogi um tvöleytið í gær eftir að hafa lent í átökum við lögreglumann á frívakt. Lögreglumaðurinn var óeinkennisklæddur og beitti varnarúða til að yfirbuga manninn eftir að til átakanna kom. Tilkynning barst frá lögreglunni í gær þar sem sagði að maðurinn hefði verið að abbast upp á viðskiptavini verslunarinnar. Lögreglumaður sem verið hefði á staðnum hefði reynt að ræða við manninn. Komið hafi til átak sem lokið hafi með því að varnarúða hafi verið beitt. 

Sjónarvottar sem mbl.is ræddi við, sögðu manninn hafa komið inn í verslunina og rekist þar utan í starfsmann, að því er virtist með vilja, en maðurinn virtist vera í annarlegu ástandi. Lögreglumaðurinn hafi síðan komið inn í verslunina í kjölfar hans og farið að ræða við manninn. Þeir hafi farið að deila sem endaði með því að maðurinn sló til lögreglumannsins. Átök hafi þá brotist út sem enduðu með því að lögreglumaðurinn greip til varnarúðans, sem fyrr segir.

Loka þurfti versluninni um stund eftir atvikið, en skola þurfti úðann úr augum mannsins, þrífa verslunina auk þess sem öryggisverðir og lögregla kom á vettvang til að taka skýrslur af viðstöddum. 

Viðskiptavinir verslunarinnar urðu margir skelkaðir

Sjónarvottar segja í samtali við mbl.is að þeim hafi ekki verið kunnugt að um lögreglumann hafi verið að ræða fyrr en eftir að maðurinn hafði verið yfirbugaður, enda hafi lögreglumaðurinn ekki verið einkennisklæddur og ekki upplýst hver hann var þegar hann kom inn í verslunina. Fólk hafi því allt eins talið að um einhvers konar uppgjör hafi verið að ræða á milli mannanna. Þá velta menn því fyrir sé hvort það teljist eðlilegt verklag að lögreglumaður á frívakt sé með varnarúða á sér og hvers vegna ekki var strax haft samband við öryggisgæslu verslunarmiðstöðvarinnar til að reyna að leysa málið án þess að til átaka kæmi. Hvorki starfsmenn né viðskiptavini verslunarinnar sakaði en margir urðu skelkaðir.

mbl.is hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og spurðist fyrir um málið og fékk þau svör að málið væri í skoðun hjá lögreglunni.

Mega beita úða þegar vægari aðferðir duga ekki til

Fram kemur í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna að lögreglu sé einungis heimilt að nota úðavopn þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa manns við handtöku. Ennfremur mega þeir einir nota úðavopn sem hlotið hafa slíka þjálfun.

Tekið er fram í reglunum að beiting úðavopns teljist vægari aðferð en beiting kylfu. Ávallt þurfi þó að hafa í huga að lögreglumenn verði að geta rökstutt beitingu úðavopna og ljóst þurfi að vera að önnur vægari úrræði hafi ekki dugað.

Þá þarf að gera skýrslu í sérhvert sinn sem úðavopni er beitt. Þar skal taka fram ástæðu notkunarinnar, hvernig úðanum hafi verið beitt og þær ráðstafanir sem síðar hafi verið gerðar til þess að koma í veg fyrir skaða af völdum efnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka