Álið hleðst upp í Straumsvík

Útskipun á áli við Straumsvíkurhöfn.
Útskipun á áli við Straumsvíkurhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Útskipun á áli hófst eftir hádegi við álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík og fengu alls 19 stjórnendur fyrirtækisins að taka þátt. En sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði þá samþykkt ósk álversins um að fjölga þeim sem þátt taka í útskipuninni um fjóra.

Kol­beinn Gunn­ars­son, formaður Verka­lýðsfé­lag­ins Hlíf­ar, er óhress með þá niðurstöðu. „Þetta er nú ekki alveg í takt við þær leikreglur sem maður hélt að væru í gildi. Sýslumaður hins vegar ákveður þetta og þá er þetta orðin sú staða sem við þurfum að vinna úr,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Flutningaskip álversins mun að líkindum leggja af stað úr höfn áleiðis til Rotterdam í Hollandi næstkomandi fimmtudag. „En það ætti í raun að fara á morgun miðað við eðlilegan tíma. Þeir munu sennilega reyna að setja sem mest í það,“ segir Kolbeinn.

Spurður hvort hann telji að verkfallið sé farið að bíta kveður hann já við. „Þó þeir fari með 4.000 tonn af áli á morgun eða fimmtudag þá er orðið hér töluvert magn á bryggjunni. Þetta er farmur sem hefði átt að fara í þarsíðustu viku,“ segir Kolbeinn og heldur áfram: „Þetta er að hlaðast upp hjá þeim.“

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir þá stöðu sem nú er uppi á svæði álversins „ekkert gleðiefni.“

„Það er ekkert gleðiefni fyrir stjórnendur að þurfa að standa í þessu en við teljum það engu að síður skyldu okkar að reyna að bjarga verðmætum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert