Bryndís íhugar forsetaframboð

Bryndís Hlöðversdóttir
Bryndís Hlöðversdóttir

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segist nú af alvöru íhuga framboð til embættis forseta Íslands. Í samtali við mbl.is segist hún finna fyrir meðbyr með hugsanlegu framboði hennar.

„Ég er að hugsa þetta af alvöru en það á sér ekki langan aðdraganda,“ segir Bryndís en það var síðastliðinn sunnudag sem hún ákvað að velta hlutunum almennilega fyrir sér. „Og gerðist það aðallega vegna þess að fólk er búið að hafa samband og hvetja mig til þess að hugsa málið.“

Aðspurð segist hún ekki ætla að gefa sér langan umhugsunartíma. „Þetta er stór og mikil ákvörðun en ætli ég verði ekki tilbúin til að svara þessu í kringum páskana.“

Bryndís er fædd á Selfossi 8. október 1960 og menntaður lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún hefur setið á Alþingi fyrir Alþýðubandalag og óháða og síðar Samfylkinguna.

„Ég hef löngum haft áhuga á ýmsu sem snýr að stjórnskipun og hef meðal annars kennt stjórnskipunarrétt í háskóla. Og haft mikinn áhuga á lýðræðismálum, -umbótum og ýmsu öðru sem tengist þessu embætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert