Heilbrigðiseftirlitið skoði hvar fiskurinn breytti um tegund

MAST mun beina því til heilbrigðiseftirlitsins að skoða hvar fiskurinn …
MAST mun beina því til heilbrigðiseftirlitsins að skoða hvar fiskurinn breytti um tegund. mbl.is/Rax

Matvælastofnun mun beina því til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að skoða tegundarsvik á veitingastöðum í borginni, að sögn Dóru S. Gunnarsdóttur, fagsviðsstjóra matvælaöryggis og neytendamála hjá MAST.

„Við erum með eftirlit með þeim fyrirtækjum sem eru framar í keðjunni, en heilbrigðiseftirlitið hefur eftirlit með smásölunni. En sem samræmingaraðili þá munum við væntanlega beina því til þeirra að skoða hvar fiskurinn breytti um tegund,“ segir Dóra.

Greint var frá  því í Morg­un­blaðinu í morg­un að 30% sýna sem starfs­menn MATÍS tóku á tíu veit­inga­stöðum í Reykja­vík sýndu að ekki var um þá fisk­teg­und að ræða sem pöntuð hafði verið af mat­seðli. Starfs­menn MATÍS fóru á veit­ingastaði í tengsl­um við rann­sókn sem þeir eru að vinna, pöntuðu fisk og tóku úr hon­um sýni sem svo voru erfðagreind og reynd­ust átta sýni af 27 ekki vera af þeirri teg­und sem þær áttu að vera.

Dóra bendir á að ekki sé vitað hvaðan veitingahúsin sem könnun MATÍS tók til séu að fá fiskinn. „Það getur verið frá fiskbúðum sem eru undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins, eða frá fiskvinnslum sem eru þá undir okkar eftirliti.“

Tvær tegundir af tíu rangmerktar

Hún segir MAST reyna að fylgjast með því hvort misbrestur sé í merkingum hjá þeim fyrirtækjum sem heyri undir stofnunina.  „Við tókum sjálf sýni af markaði í desember. Þá fórum við í verslanir og tókum sýni frá fyrirtækjum sem eru undir okkar eftirliti. Tekin voru tíu sýni og af þeim innihéldu átta rétta fisktegund, en tvö sýni innihéldu fisktegund sem var dýrari en sú sem upp var gefin á umbúðunum.“

Fljótt hafi verið brugðist við rangmerkingunum og raunar hafi þegar verið búið að lagfæra þær þegar MAST fór í eftirfylgni. „Í öðru tilfellinu var um mannleg mistök að ræða og í hinu tilfellinu var þetta spurning um hráefnisskort og þar var þegar búið að breyta umbúðum þannig upplýsingar voru nú réttar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert