Íslendingur særðist í árásinni

AFP

Íslendingur er meðal þeirra sem særðust í hryðjuverkaárásinni í Istanbúl í morgun. Þetta fékk utanríkisráðuneytið staðfest fyrir skömmu hjá tyrkneskum yfirvöldum. Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekki vitað hver Íslendingurinn er né heldur hversu mikið slasaður hann er. 

Utanríkisráðuneytið er að reyna afla frekari upplýsinga um málið en tyrkneska lögreglan hafði samband við íslensku utanríkisþjónustuna nú fyrir skömmu.

AFP

Fimm létust í árásinni og 36 særðust, samkvæmt upplýsingum frá tyrkneskum yfirvöldum. 

Árás­in í morg­un var gerð í göngu­götu í evr­ópska hluta borg­ar­inn­ar. Gat­an, Istiklal Caddesi, er vin­sæl versl­un­ar­gata einkum um helg­ar og leggja marg­ir ferðamenn leið sína þangað. 

AFP

Heil­brigðisráðherra Tyrk­lands seg­ir að 36 hafi særst í árás­inni og eru tólf út­lend­ing­ar þar á meðal Íslendingur. Sprengj­an sprakk við versl­un­ar­miðstöð, í um 500 metra fjar­lægð frá Taksim torgi.

Ísraelska utanríkisþjónustan hefur staðfest að þrír ísraelskir ríkisborgarar séu meðal þeirra sem særðust í árásinni.

Í frétt Al Jazeerra í Tyrklandi kemur fram að tvö ísraelsk börn séu meðal þeirra sem særðust, tveir Írar, Þjóðverji og Írani auk Íslendings.

Bætt við klukkan 15:10

Þar er haft eftir heilbrigðisráðherra Tyrklands, Mehmet Müezzinoğlu, að fjórir hafi látist á staðnum en ísraelsk kona hafi látist eftir komuna á sjúkrahús. Fjórir væru alvarlega særðir og væru í aðgerð. Af þeim 36 sem særðust í árásinni væru sjö mjög alvarlega særðir. Sex Ísraelar særðust, tveir Írar og auk Íslendingsins væru Þjóðverji, Írani og einn frá Dúbaí særðir.

Fólk á flótta eftir að sprengjan sprakk
Fólk á flótta eftir að sprengjan sprakk AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert