Enn óljóst um þjóðerni fórnarlamba

AFP

Enn virðist ýmislegt óljóst um þjóðerni þeirra sem létust í sjálfsvígsárásinni í Istanbúl í Tyrklandi í gær. Hið sama á við um þá sem særðust í árásinni. Tyrknesk yfirvöld segja að Íslendingur sé meðal þeirra særðu en enn hefur ekki tekist að fá frekari upplýsingar. 

AFP

Utanríkisráðuneytið gaf út eftirfarandi tilkynningu á sjöunda tímanum í gærkvöldi:

„Að gefnu tilefni vegna fregna í dag um mannskæða sjálfsvígsárás í miðborg Istanbúl og að Íslendingur hafi verið á meðal fjölmargra særðra vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri: Enn sem komið er hefur ekkert komið fram sem staðfestir að Íslendingur hafi lent í árásinni. Utanríkisráðuneytið fékk þær upplýsingar frá tyrkneskum stjórnvöldum fyrr í dag að íslenskur ríkisborgari hefði verið á meðal þeirra sem lentu í árásinni en þrátt fyrir miklar eftirgrennslanir borgaraþjónustu ráðuneytisins og ræðismanns Íslands í Istanbúl hjá tyrkneskum lögregluyfirvöldum og sjúkrahúsum Istanbúl hefur ekkert komið fram sem staðfestir að Íslendingur hafi lent í árásinni. 

Borgaraþjónusta ráðuneytisins mun halda áfram að afla staðfestingar á þessu og birta frekari upplýsingar þegar tilefni er til.“

AFP

Að minnsta kosti fjórir létust í árásinni sem var gerð klukkan 11 að staðartíma í gærmorgun (klukkan 9 að íslenskum tíma) á fjölfarinni verslunargötu, Istiklal Caddesi, í evrópska hluta borgarinnar. Tugir særðust, þar af nokkrir alvarlega. 

Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá því að þrír Ísraelar og einn Írani hafi látist en bandarísk yfirvöld segja að tveir Ísraelanna séu bandarískir ríkisborgarar. 

AFP

Myndskeið úr öryggismyndavélum sem dreift hefur verið í tyrkneskum fjölmiðlum sýnir meintan tilræðismann, klæddan í síða kápu, nálgast lítinn hóp af fólki fyrir utan skrifstofu borgarinnar rétt áður en sprengjan springur.

Borgarstjórinn í Istanbúl, VasipSahin, telur að skotmark árásarinnar hafi verið bygging borgarinnar og heimildir AFP úr röðum vestrænna stjórnarerindreka herma að árásarmaðurinn hafi einnig ætlað sér að beina árásinni gegn ferðamönnum.



Hávaðinn frá sprengingunni var gríðarlegur og ein þeirra sem voru í nágrenninu er söngkonan í hljómsveitinni Skunk Anansie, Deborah Dyer, betur þekkt sem Skin. Hún var á hóteli þar skammt frá og segir að hótelið hafi hrist til og frá eins og pappaspjald.

AFP

Enn er ekki ljóst hverjir stóðu á bak við árásina en fjölmiðlar sem styðja stjórnvöld í Tyrklandi herma að Ríki íslams hafi átt hlut á máli en hryðjuverkasamtökin bera ábyrgð á nokkrum árásum í Tyrklandi undanfarin misseri. Þar á meðal sjálfsvígsárás á bláu moskuna í Istanbúl í janúar. 

Meintur tilræðismaður er sagður heita Savas Yildiz, 33 ára tyrkneskur öfgasinni. Líkt og venja er heitir forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, því að hafa hendur í hári þeirra sem beri ábyrgð á árásinni og eins hafa samherjar Tyrklands hjá Atlantshafsbandalaginu, svo sem Bandaríkjamenn, heitið Tyrkjum stuðningi.

AFP

Aðstoðarheilbrigðisráðherra Tyrklands, Ahmet Baha Otuken, segir að ísraelsk kona, Simha Demri, sé meðal þeirra sem létust í árásinni. CNN í Tyrklandi segir að 31 árs Írani, Ali Rıza Khalman hafi látist og tveir aðrir Ísraelar, Yonathan Suher, 40 ára og Avraham Goldman, 70 ára. Bandaríska utanríkisþjónustan hefur nefnt þá sem bandaríska ríkisborgara.

Af þeim 36 sem særðust eru 12 útlendingar að sögn heilbrigðisráðherra, Mehmet Muezzinoglu. Þar af sex Ísraelar, tveir Írar, einn Þjóðverji, Íslendingur, Írani og einn frá Dúbaí.

Alls hafa yfir 200 látist í fimm sprengjutilræðum í Tyrklandi frá því í júlí í fyrra. Þrjú þeirra eru á ábyrgð Ríkis íslams og afsprengi PKK, Verkamannaflokks Kúrdistan, ber ábyrgð á hinum tveimur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert