Upprisan hefur ekki enn vitjað okkar

Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands.

Miðað við þjóðfélagsumræðuna um hvers konar vanda og vantraust manna á milli er ljóst að upprisan hefur ekki enn vitjað okkar, sagði Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands í predikun í Dómkirkjunni í morgun.

„Sem þjóð stöndum við enn við krossinn, vonsvikin, reið, sár, særð, ráðalaus, hrópum eins og lýðurinn forðum og leitum að sökudólg. Við leitum líka að Messíasi, leiðtoganum sem öllu góðu getur komið til leiðar. Við þurfum virkilega að fara að spyrja okkur hvort við ætlum að staldra enn við krossinn þegar ljóst er að páskasólin skín. Það kann að vera að upprisusólin sé á bak við skýin en við vitum að sólin kemur alltaf upp á ný, jafnvel þó við efumst um það þegar svartnættið er sem mest,“ sagði biskup Íslands.

Agnes gerði hryðjuverkin í Brussel að umræðuefni og þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til hér á landi vegna þeirra. 

„Litla Ísland hefur ekki farið varhluta af fréttunum og gripið er til ráðstafana sem sýna að hatrið má ekki ná sér á strik og ofbeldi verður ekki liðið. Öryggisgæsla er hert og verðir laganna eru sýnilegri en annars.“

Agnes minnti á að ofbeldisverk eru ekki unnin í nafni trúar. Kærleiksverk eru unnin í nafni trúar og hún biður íslensku þjóðina sem kristna þjóð að svara neyðarbeiðni Hjálparstarfsins vegna hörmunga í Eþíópíu. 

„Kristnir menn eiga að taka höndum saman til að vinna gegn þeirri óöld sem ríkir í heiminum. Kristnir menn eiga að standa saman og standa með lífinu og mennskunni hver sem í hlut á. Þegar samverjinn kom að slasaða manninum í dæmisögu Jesú spurði hann ekki hver beitti þig ofbeldinu eða hvers vegna léstu berja þig, heldur gerði hann að sárunum og kom honum á öruggan stað. Af dæmisögum Jesú, orðum hans og framkomu við fólk megum við læra og taka okkur til fyrirmyndar. Sem kristin þjóð eigum við að taka á móti flóttafólki hvort sem það er kristið eða annarrar trúar. Sem kristin þjóð eigum við að svara neyðarbeiðni Hjálparstarfsins vegna hörmunga fólksins í Eþíópíu sem er á barmi hungursneyðar vegna þurrka og uppskerubrests,“ sagði Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands í predikun í dag.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert