Stödd í úthverfi helvítis

Þórunn Ólafsdóttir líkir aðstæðum í smábænum Idomeni við úthverfi helvítis.
Þórunn Ólafsdóttir líkir aðstæðum í smábænum Idomeni við úthverfi helvítis. AFP

„Allir eru skítugir, svangir og aðstaðan hræðileg. Síðustu daga hefur hann haldist þurr og drullusvaðið því að mestu leyti þornað, en allt er skítugt. Kinnar barnanna eru þaktar moldarlagi. Pínulitlu kúlutjöldin sem heilu fjölskyldurnar hýrast í eru þakin ryki og drullu. Megn brunalykt er í loftinu og reykurinn veldur óþægindum í öndunarfærum. En hún heldur þó hland- og skítalyktinni í lágmarki.“

Svona lýsir Þórunn Ólafsdóttir aðstæðum í gríska smábænum Idomeni sem er á landamærum Grikklands og Makedóníu. Á svæðinu eru um 10 þúsund manns en lítið af klósettum og sturtum og ekkert heitt vatn að fá. Hún segir sparnað flóttamanna á þrotum og hafa flóttamenn aðeins hjálparsamtök að reiða sig á. Að því leytinu sé ástandið frábrugðið því sem var á Lesbos. 

Á Lesbos hafi fólk verið búið að ná landi í Evrópu og taldi sig hólpið. Áfanga hafi verið náð, það lifði af og var fullt af von og sannfært um að það myndi spjara sig þrátt fyrir að aðstaðan á Lesbos hafi verið slæm og neyðin oft mikil. 

Verra ástand en á grísku eyjunni Lesbos

Þórunn hefur starfað sem sjálfboðaliði á grísku eyjunni Lesbos þar sem fjöldi flóttamanna hefur komið á land. Hún segir að eftir að hafa tekið á móti þúsund flóttamanna þegar þeir komu á lekum gúmmíbátum til eyjunnar taldi hún sig hafa séð ýmislegt. „En þetta er það allra versta,“ skrifar hún.

„Hér er allt annað andrúmsloft því á Lesbos var þó von. Hér er ekki von, hér er bara þreyta, hungur, drulla og ömurleiki,“ segir Þórunn og bætir við að hún hafi átt samtal við sýrlenskan fyrrum starfsmann Lækna án landamæra. Sá hafi áður byggt upp margar flóttamannabúðir en nú sé hann sjálfur flóttamaður ásamt konu sinni og ungabarni í óboðlegum búðum.

„Hann hefur í nógu að snúast, hjálpar fyrrum kollegum sínum að túlka og sendist út og suður. „Ég er heppinn. Ég hef hlutverk,“ segir hann. ,,Ég veit að konan mín segir ykkur að hún hafi það fínt, en það er ekki satt. Enginn hefur það fínt hérna. Við erum öll að reyna að halda andliti, en hér líður öllum illa,“ hefur Þórunn eftir honum.

Pistill Þórunnar: „Hugleiðingar frá helvíti“ í heild sinni. 

Þórunn Ólafsdóttir.
Þórunn Ólafsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert