Hið eina rétta að boða til kosninga

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vitum sem er að það kostar peninga og fyrirhöfn að stofna félög og bankareikninga í öðrum heimsálfum,“ skrifar Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sína. „Tilgangurinn með því er ýmist að leyna fjármunum eða komast hjá skattgreiðslum.“

Í gær kom fram í fréttum að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru með tengsl við aflandsfélög, forsætisráðhrerann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, í gegnum eiginkonu sína, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Ólöf Norda, innanríkisráðherra, í gegnum eiginmann sinn. Þá hefur Vilhjálmur Þorsteinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagt frá því að hann eigi félag í Lúxemborg.

„Ef forsætisráðherra er ekki þeim mun hræddari við fólkið í landinu er þess vegna hið eina rétta að gera við núverandi aðstæður að rjúfa þing og efna til kosninga,“ Skrifar Helgi.

Færsla hans í heild:

„Aflandseyjafólkið er nú afhjúpað eitt af öðru og samkvæmt fréttum munu nöfn hundruða nýríkra Íslendinga birtast á næstu vikum. Þetta fólk hefur sagt og mun segja að það hafi verið skráð fyrir þessu vegna misskilnings, það hafi aldrei staðið til að nota félagið, það hafi ekki vitað að félagið væri í skattaskjóli o.s.frv. Það mun líka láta að því liggja að þetta hafi ekkert með skatta að gera. En við vitum sem er að það kostar peninga og fyrirhöfn að stofna félög og bankareikninga í öðrum heimsálfum. Tilgangurinn með því er ýmist að leyna fjármunum eða komast hjá skattgreiðslum. Skattaskjól eru æxli á heiminum sem eru bæði til þess gerð að gera hina ríku ríkari og færa peninga frá löndunum sem þeir urðu til í. Stjórnmálamenn um allan heim berjast gegn þessari óværu. Að íslenskir stjórnmálamenn eigi eignir á þessum stöðum og hafi leynt upplýsingum um það eða svarað ranglega veldur fullkomnu vantrausti á þá.

Forsætisráðherra hefur kallað eftir vantrauststillögu svo láta megi reyna á hvort hann og ríkisstjórn hans njóti trausts eftir þessi hneykslismál. Sjálfsagt er að láta reyna á hvort þeirra eigin þingmenn treysta þeim áfram eða ekki en það sem máli skiptir er ekki hvað þingmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks finnst heldur hvort þjóðin treystir ríkisstjórninni. Ef forsætisráðherra er ekki þeim mun hræddari við fólkið í landinu er þess vegna hið eina rétta að gera við núverandi aðstæður að rjúfa þing og efna til kosninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert