„Hann er okkar leiðtogi“

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra segir framsóknarmenn styðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þrátt fyrir uppljóstranir um aflandsfélag í hans eigu. Í viðtali við RÚV lýsti hún Sigmundi sem „leiðtoga okkar“ og sagði framsóknarmenn ætla að ræða „leynigesti“ RÚV.

Fréttamaður RÚV náði tali af Sigrúnu fyrir fund þingflokks Framsóknarflokksins í morgun og spurði hana hvort framsóknarmenn styddu formann sinn.

„Vitaskuld. Hann er okkar leiðtogi og hefur sýnt það og sannað fyrir íslensku þjóðina að vera það. Hann hefur gert mikið og gott starf,“ sagði Sigrún sem sagði að ræða ætti atburði síðustu daga, „leynigesti“ RÚV og fleira. Gekk hún síðan í burtu frá viðtalinu.

„Ég hélt að þið hefðuð gleymt leynigestinum núna. Ég hélt að hann væri alltaf fylgifiskur hjá ykkur, að þið væruð í þeim leik ennþá,“ sagði Sigrún þegar hún gekk burt frá fréttamanni RÚV. Virtist hún þar vísa til Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, fréttamanns Reykjavík Media, sem tók þátt í viðtali sænska ríkissjónvarpsins við Sigmund Davíð þar sem hann var spurður út í félagið Wintris.

Viðtal RÚV við Sigrúnu Magnúsdóttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert