Skýrt að Sigmundur er að hætta

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Viðræður eru í gangi og þeim miðar vel áfram. Það er í sjálfu sér ekkert mikið meira um það að segja. Þetta eru þó ekki eiginlegar samningaviðræður enda tveir flokkar sem eru þegar í samstarfi. Það er meira verið að fara yfir á málin,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í viðræðum flokksins við Sjálfstæðisflokkinn um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Aðspurður segist Ásmundur hafa stutt tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra, á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í gær um að Sigmundur léti af ráðherraembætti og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tæki við sem forsætisráðherra. Spurður segist hann hafa skilið tillöguna þannig að um varanlegt fyrirkomulag væri að ræða en ekki einungis tímabundið.

„Menn hafa bara lagt þann skilning í þetta að Sigurður Ingi væri að taka við forsætisráðherraembættinu,“ segir Ásmundur. „Hann [Sigmundur Davíð] er að stíga til hliðar og Sigurður Ingi er að taka við. Það er minn skilningur. Það er held ég alveg skýrt.“ Spurður hvort framsóknarmenn gerðu kröfu um að halda áfram forsætisráðuneytinu vill Ásmundur ekkert tjá sig um það. „Málið er að þetta gengur bara vel og þetta eru flokkar sem eru þegar í samstarfi sem eru bara að fara yfir málin í ljósi atburða gærdagsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert