„Kosningar strax“ gefa lítið færi á endurnýjun

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. mbl.is/ Styrmir Kári

Verði orðið við kröfunni um „kosningar strax“ þá gefst lítið færi á endurnýjun í forystusveit stjórnmálaflokkanna. Á þetta bendir Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

„Verið kosið strax þá gagnast það best þeim sem nú eru í sætum,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is, en skammur fyrirvari kosninga felur í sér að stjórnmálaflokkar eru líklegri en ella til að velja uppstillingarleiðina en að efna til prófkjörs. Er það vegna skorts á tíma og þörf á því að þjappa fólki saman.

„Sumir flokkar, nýir flokkar, geta fundið fólk. En þeir sem þegar eru með fólk á þingi fara annað hvort í uppstillingar, og eiga þá tiltölulega óhægt um vik með að henda fólki út og fá nýtt fólk inn með stuttum fyrirvara, eða þeir fara í prófkjör, þó lítill tími sé fyrir slíkt. Og þá má gefa sér að litlar breytingar verði á listum og forystu flokksins,“ segir hún.

Krafan um kosningar strax hentar þannig illa þeim flokkum sem kunna að hafa áhuga á að gera breytingar á flokksforystunni, t.d. þegar kemur að formannskjöri.

Stefanía segir að breytingar á forystusveit kalla á átök „og það fer illa saman við hagsmuni flokks þegar hann stendur frammi fyrir kosningum. Þá er mikill þungi í því að snúa bökum saman og fylkja sér að baki þeim sem fyrir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert