Reynir að gera aðra ábyrga

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Tilgangurinn með þessu er að reyna að gera aðra ábyrga og beina athyglinn frá sjálfum sér. Ef setja á einhverjar nýjar almennar reglur um birtingu skattframtala, gott og vel. En með þessu er hann að koma ábyrgðinni á eigin málsvörn yfir á aðra. Hann getur bara varið sína stöðu sjálfur og þarf ekki að blanda öðrum í það. Það er ekki annarra að sanna sakleysi hans.“

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við þeim orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Morgunblaðið um helgina að hann sé reiðubúinn að birta öll gögn tengd skattframtali sínu með því skilyrði að forystumenn annarra stjórnmálaflokka gerir slíkt hið sama.

Helgi segir að hann gæti birt skattframtal sitt sér að meinalausu. „En ég ætla hins vegar ekki að taka þátt í hans málsvörn. Hann verður að takast á við það mál sjálfur. Með þessu er hann bara að dreifa athyglinni frá sjálfum sér og því sem fólk er að gagnrýna, sem eru hagsmunatengslin, ekki skattaskýrslan hans.“

Þannig snúist málið í grunninn ekki um það hvort Sigmundur hafi greitt alla sína skatta heldur að hann hafi ekki greint frá aðkomu sinni að aflandsfélagi sem átt hefði kröfu í þrotabú bankanna á sama tíma og hann hafi líka verið hinu megin við borðið.

„Það er á hans ábyrgð að svara fyrir sig. Það er ekki á mína ábyrgð. Það væri mér að meinalausu að birta skattframtalið mitt. Ég á engin aflandsfélög eða neitt slíkt. En ég ætla ekki að taka þátt í því að hann geri aðra ábyrga fyrir því hvað hann sjálfur segir, birtir eða sannar í sínu máli.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert