Tekist á um sýningar á EM á Ingólfstorgi

Áður hafa fótboltaleikir verið sýndir á risaskjá á Ingólfstorgi. Gera …
Áður hafa fótboltaleikir verið sýndir á risaskjá á Ingólfstorgi. Gera má ráð fyrir að umgjörðin verði þó öllu glæsilegri í sumar þegar íslenska karlalandsliðið spilar í fyrsta skiptið á stórmóti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir hópar takast nú á um að fá að vera með aðstöðu á Ingólfstorgi í sumar til að sýna frá Evrópumótinu í fótbolta á stórum skjáum og standa fyrir öðrum viðburðum í tengslum við keppnina. Það eru fjarskiptafyrirtækin Síminn og Nova sem fara fyrir hópunum og er meðal annars tekist á um hvort Nova hafi réttindi til að sýna frá leikjunum. Gera má ráð fyrir niðurstöðu borgarinnar í næstu viku.

Tveir hópar vilja vera með dagskrá á Ingólfstorgi

Í sumar tekur íslenska karlalandsliðið í fótbolta þátt í fyrsta stórmóti sínu og af þeim sökum er áhugi Íslendinga á keppninni meiri en oft áður. Strax í haust sótti Síminn um að fá að setja upp aðdáendasvæði á Ingólfstorgi, en fyrirtækið er með sýningarrétt frá keppninni. Með Símanum í umsókninni eru KSÍ, Íslenskar getraunir og aðrir styrktaraðilar KSÍ. Það eru félögin N1, Icelandair, Landsbankinn, Vífilfell og Borgun. Í bókun skipulagsyfirvalda kallast hópurinn K-hópurinn.

Ingólfstorg hefur undanfarið verið vinsælt til afnota undir allskonar starfsemi. …
Ingólfstorg hefur undanfarið verið vinsælt til afnota undir allskonar starfsemi. Þannig stóð Nova fyrir skautasvelli í vetur. Photo: Óli Haukur Mýrdal

Nova og Ölgerðin (N-hópurinn) höfðu einnig sýnt því áhuga að setja upp aðdáendasvæði og varð úr að Reykjavíkurborg auglýsti eftir umsóknum um tímabundin afnot af borgarlandi fyrir stærri viðburði.

Þegar báðir hópar höfðu skilað inn umsóknum fór valnefnd á vegum borgarinnar yfir þær og gaf þeim stig út frá hönnun og umgjörð, þátttöku í borgarlífinu, dagskrá og reynslu af svipuðum viðburðum.

Valnefndin valdi N-hópinn

Í umsögn valnefndarinnar kemur fram að N-hópurinn hafi gert fyrir fjölbreyttari viðveru á Ingólfstorgi en bara sýningar frá keppninni. Þannig hafi verið uppi áform um tónleika, útibíósýningar og fleira. K-hópurinn hafi aftur á móti verið með tillögur af því að setja upp mismunandi viðburði á nærliggjandi svæðum og staðfestir Magnús að horft hafi verið til þess að setja upp sparkvöll á Lækjartorgi og annars konar viðburði á Austurvelli. Ingólfstorg yrði þó hjarta svæðisins.

Síminn leiðir annan hópinn ásamt KSÍ.
Síminn leiðir annan hópinn ásamt KSÍ.

Niðurstaða valnefndarinnar lá fyrir í byrjun mánaðarins og var kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs fyrir rúmlega viku síðan. Var hún á þann veg að hugmyndir N-hópsins kæmu betur út varðandi þátttöku í borgarlífinu og hönnun og umgjörð. Dagskrá og reynsla voru metin nokkuð sambærileg, en báðir hópar hugðust sýna frá leikjum í keppninni. Ákvörðunin hefur þó ekki formlega verið tekin í málinu og hafa réttindamál um útsendingu flækt það síðustu misseri.

Deilur um sýningarétt

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla og markaða hjá Símanum, segir í samtali við mbl.is að ferli Reykjavíkur byggist allt á misskilningi og trú Nova um að félagið hafi rétt til að sýna frá leikjunum hér á landi.

Hafði Nova í umsókn sinni og í bréfum með nánari útskýringum greint frá því að félagið hygðist fá svokölluð opinber sýningaleyfi (e. public screening license) frá evrópska fótboltasambandinu (UEFA) til að sýna leikina á stórum skjáum. Umsóknarferli fyrir slíkt væri enn opið og því öruggt að hægt væri að sýna frá leikjunum fengi fyrirtækið Ingólfstorgi úthlutað.

Nova og Ölgerðin standa fyrir hinum hópnum sem sótti um …
Nova og Ölgerðin standa fyrir hinum hópnum sem sótti um að vera með umgjörð á Ingólfstorgi í sumar.
Svokallað Fanfest í Bogota, höfuðborg Kólumbíu þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu …
Svokallað Fanfest í Bogota, höfuðborg Kólumbíu þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram í Brasilíu árið 2014 AFP



Magnús segir þetta aftur á móti alrangt og vísar í bréf sem CAA11, umsjónaraðili á sýningarrétti fyrir UEFA, sendi til Reykjavíkurborgar þar sem það er tekið skýrt fram að Nova hafi ekki leyfi til sýninga frá viðburðinum þar sem styrktaraðili og/eða rétthafi útsendingarinnar hyggist standa fyrir slíkum viðburði. Þá er það tekið sérstaklega fram að CAA11 muni ekki veita Nova leyfið til að sýna leiki undir þessum kringumstæðum.

Umsjónaraðili UEFA sendir Reykjavíkurborg bréf

Vitnar Magnús meðal annars í reglur UEFA um opinberar sýningar þar sem þetta kemur fram. Meðfylgjandi er ákvæðið sem Síminn hefur vísað í á ensku:

„No Public Screenings may be hosted, operated or organised by any person, company or organization which (in UEFA's opinion) is a competitor of any official UEFA EURO 2016™ sponsor and/or UEFA EURO 2016™ broadcast partner in the relevant country.“

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur segir að fyrst og fremst sé það fagnaðarefni að til standi að sýna viðburðina í opinberu rými. Segir hann að á þessari stundu sé óljóst hverjir geti sýnt frá viðburðunum og þar sem það styttist óðfluga í keppnina þurfi það að liggja fyrir sem fyrst. Sagðist hann ekki vilja fullyrða hvenær það yrði.

Frá Ingólfstorgi fyrir tveimur árum þegar HM var sýnt.
Frá Ingólfstorgi fyrir tveimur árum þegar HM var sýnt. mbl.is/Nova

Niðurstaða liggi fyrir í næstu viku

Hildur Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði og sú sem hefur yfirumsjón með úthlutun á borgarlandi í sumar undir stærri viðburði, segir í samtali við mbl.is að Nova hafi verið gefinn frestur út þessa viku til að skýra mál sitt betur. Hún hyggist kynna niðurstöðuna fyrir sviðinu á mánudaginn og þá þurfi þetta að liggja skýrt frammi.

Hildur bendir á að í auglýsingu fyrir afnot af borgarlandi í sumar hafi ekkert verið tekið fram um að sýna þyrfti frá Evrópukeppninni. Báðir hópar hafi aftur á móti lagt á það áherslu í umsókn sinni. Segir hún að ef annar hvor aðilinn geti ekki sýnt frá viðburðinum missi umsóknin gildi sitt. „Ef þeir geta ekki gert það sem þeir segjast vilja gera þá verður ekki samið við þá,“ segir hún.

Hóparnir funda með Reykjavíkurborg í dag

Ekki er þó aðeins mögulegt að nýta Ingólfstorg undir viðburði sem þessa. Hildur bendir á að í auglýsingunni frá því fyrra á þessu ári hafi staðir eins og Bernhöftstorfan og Hljómskálagarðurinn verið nefndir. Engar umsóknir hafi þó borist vegna þess.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hittast aðilar málsins á fundi með Reykjavíkurborg núna í dag þar sem málið verður rætt og farið yfir stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert