Alda Hrönn hafnar öllum ásökunum

Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson. Júlíus Sigurjónsson/Kristinn Ingvarsson

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, neitar öllum ásökunum sem koma fram í kærum tveggja sakborninga í LÖKE-málinu svokallaða. Hún er bundið trúnaðarskyldu og getur því ekki tjáð sig um málið. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn mbl.is.

Líkt og komið hefur fram hafa tveir karlmenn lagt fram kæru á hendur Öldu Hrönn. Annar er Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður og hinn er fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins NOVA. Kæra Gunnars er öllu ítarlegri, eða sjö blaðsíður en kæra hins mannsins er tvær blaðsíður. 

Brotið gegn friðhelgi einkalífs ásamt fyrrverandi maka

Gunnar segir meðal annars í kæru sinni að Alda Hrönn hafi borið á hann rangar sakir, aflað illa fenginna trúnargagna frá fyrrverandi maka Gunnars og notað þau til að hefja einkarannsókn á honum og tveimur vinum hans án þess að neitt benti til þess að þeir hefðu brotið lög, farið með rangt mál fyrir dómi, við saksóknara og í málsskjölum og stjórnað rannsókn málsins þrátt fyrir að vera „í raun kærandi í málinu.“

Í kæru hans segir einnig að Alda Hrönn hafi brotið gegn lögum um persónuvernd og grunar Gunnar að hún hafi einnig brotið gegn fjölda greina almennra hegningarlaga. Þá segir Gunnar fyrir hendi rökstuddan grun um hlutdeild Öldu Hrannar í brotum fyrrverandi maka hans gegn friðhelgi einkalífs. „Ekki er vilji til að sækja fyrrum maka fyrir saka fyrir afritun gagna og húsbrot sem urðu í geðshræringui við sambandsslit,“ segir meðal annars í kærunni.

Tók við og dreifði nektarmynd

Þá segir Gunnar einnig að Alda Hrönn hafi sannfært fyrrverandi maka hans um að hún ætti rétt á að fá í hendur þau gögn vegna stöðu sinnar. „... en ekkert í lögreglulögum eða sakamálalögum réttlætir að varalögreglustjóri á Suðurnesjum hafi aðgang að viðkvæmum einkagögnum íbúa í Reykjavík án þess að neitt bendi til þess að þau gögn tengist refsiverðri háttsemi eða varði lögregluembættið á Suðurnesjum,“ segir í kærunni.

Gunnar segir að meðal gagna sem hann segir að Alda Hrönn hafi tekið við og dreift án þess að lögreglumál væri í gangi eða aðstæður hafi réttlætt slíkt hafi verið nektarmynd af honum. „Ekki verður annað séð en athæfi Öldu Hrannar falli undir verknaðarlýsingu á hlutdeild hefndarkláms, þrátt fyrir að fyrrum maki hafi aldrei haft ásetning til þess,“ segir einnig í kærunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert