Rannsókn á hnífaárás lokið

Stúdentagarðar Félagsstofnunar stúdenta við Sæmundargötu.
Stúdentagarðar Félagsstofnunar stúdenta við Sæmundargötu. Ómar Óskarsson

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hnífaárás við Sæmundargötu 6. mars sl. er lokið og var málið sent til embætti héraðssaksóknara í gær. Karlmaður á þrítugsaldri sem játað hefur að hafa stungið annan mann við stúdentagarðana sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna vegna málsins.

Fórnarlambinu var haldið sofandi í nokkurn tíma á gjörgæsludeild Landspítalans en hann hlaut lífshættulega áverka við árásina. Hann var gestkomandi í íbúð árásarmannsins á stúdentagörðunum kvöldið sem maðurinn réðst á hann. Í gæsluvarðhaldsúrskurði kemur fram að árásarmaðurinn hafi um kvöldið sagst ætla að drepa fórnarlambið.

Við skoðun síma árásarmannsins fundust Facebook-skilaboð þar sem sjá má að vinur hans sendi honum nokkur skilaboð á milli kl. 2.23 og 2.28 um nóttina. Hafði vinur mannsins nokkrar áhyggjur þar sem árásarmaðurinn hafði hringt í hann og spurt hann um hnúajárn sem hann hafi ætlað að nota til að drepa fórnarlambið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert