Höfðu tögl og hagldir í félaginu

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, og Helgi S. Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, voru skráðir eigendur aflandsfélags Adair í Panama sem stofnað var 2007 í gegnum Landsbankann en tilgangur félagsins virðist hafa verið sá að lána fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum. 

Fram kom í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins í kvöld að starfsmaður Landsbankans í Lúxemburg hafi í byrjun febrúar 2007 óskað eftir því við panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca að fá að kaupa eitt af fyrirtækjum félagsins í Panama, Adair SA, og að þeim Finni og Helga yrði veitt umboð fyrir hönd félagsins. Þó fimm einstaklingar hafi á pappírunum verið skráðir í stjórn félagsins hafi raunverulegt eignarhald verið í höndum þeirra Finns og Helga.

Frétt mbl.is: Finnur í Panama-skjölunum

Finnur segir í svari til Kastljóss að tilgangur Adair hafi verið fjárfestingar. Félagið hafi tapað miklu á fjárfestingum. Aldrei hafi orðið til neinar tekjur í félaginu. Félagið hefði greitt skatta í Panama ef til þess hefði komið að einhver skattskyldur hagnaður hefði orðið til í því. Hefði svo verið hefðu eigendurnir ennfremur greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum á Íslandi.

Ennfremur kom fram í Kastljósinu að Finnur hafi verið skráður sem eini prókúruhafi og þar með raunverulegur stjórnandi aflandsfélagsins Lozanne Inc. í Panama í lok árs 2007. Félagið var stofnað að beiðni starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg. Tekið var fram að engar frekari upplýsingar væri að finna um félagið. Sjálfur kannaðist Finnur ekkert við félagið, hafi aldrei heyrt nafns þess getið og vissi ekki hvers vegna nafn hans væri tengt við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert