Skiltin missa marks

Ferðamenn veita skiltum í Reynisfjöru, sem sett voru þar upp fyrr á árinu eftir að banaslys varð á svæðinu, litla eftirtekt. Grafískur hönnuður segir að þar hefði mátt gera mun betur í framsetningu. mbl.is var í Reynisfjöru á dögunum og fylgdist með hegðun ferðamanna á svæðinu en töluvert er um að fólk geri sér litla grein fyrir hættunni sem stafar af ölduganginum í fjörunni.

Stutt er síðan að kona var hætt komin í fjörunni þegar alda var nálægt því að hrífa hana með sér á haf út og tvö dauðaslys hafa orðið þar á síðustu árum. Alda hrifsaði með sér bandaríska konu á áttræðisaldri árið 2007 og í febrúar hlaut kínverskur maður um fertugt sömu örlög

Landeigendur á svæðinu og ferðaþjónustuaðilar settu tvö ný skilti upp eftir seinna slysið og þá hefur verið strengd keðja sem beinir öllum gestum niður í fjöruna eftir sama stígnum. Það virðist þó hafa takmarkaða virkni líkt og sjá má í myndskeiðinu þar sem lítill drengur blotnar í fjöruborðinu eftir að alda náði til hans og reglulega birtast fréttir af fólki sem hefur lent í öldurótinu. 

Eitt af því sem væri hægt að gera til að gera skilaboðin á skiltunum sterkari væri að hafa betri litanotkun að sögn Atla Hilmarssonar, grafísks hönnuðar, sem hefur komið að gerð slíkra skilta. Ekki sé vænlegt að vera með rauða stafi á appelsínugulum bakgrunni. Sjóndaprir nái einfaldlega ekki að lesa skilaboðin og þá hafi þau yfirbragð framkvæmdaskilta. Betra væri að vera með rauða stafi á hvítum bakgrunni og þá mættu þau vera mun stærri.

Þá segir hann að enska orðalagið, sem flestir styðjist við, gæti valdið ruglingi hjá þeim sem hafi ekki ensku að móðurmáli. „Dangerous sneaker waves“ er það sem stendur í enska textanum en á íslensku er talað um „lífshættulegar öldur“. Ekki er víst að margir þekki orðalagið „sneaker waves“.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert