Framfærsluþörfin minni en lánin

LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna námslán
LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna námslán mbl.is/Hjörtur

„Markmið með framfærslulánum hjá LÍN er að þau nægi fyrir framfærslu námsmanna í viðkomandi landi á meðan námi stendur. Ísland lánar til framfærslu miðað við framfærsluviðmið þess lands þar sem námið er stundað og er grunnframfærsla sundurliðuð á húsnæðiskostnað annars vegar og mat, bókakostnað, frístundir o.fl. hins vegar.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Við vinnslu úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 hafi komið í ljós að framfærslugrunnur námsmanna erlendis veitti ekki rétta mynd af raunverulegri framfærsluþörf og fyrir vikið hafi verið boðuð endurskoðun strax í úthlutunarreglum þess skólaárs. Í kjölfar þess hafi ráðgjafafyrirtækið Analytica verið fengið til þess að vinna skýrslu sem framfærslugrunnur námsmanna erlendis fyrir námsárið 2015-2016 hafi verið byggður á.

„Niðurstöður skýrslunnar sýndu fram á að töluvert ósamræmi var milli raunverulegrar framfærsluþarfar og framfærsluláns LÍN í mörgum löndum. Mest námu lánin 309% af framfærsluþörf, eða rúmlega þrefalt meira en efni stóðu til og því ljóst að lagfæringar var þörf, m.a. til að koma í veg fyrir skuldsetningu nemenda umfram þörf. Einnig eru dæmi þar sem framfærslulán voru lægri en framfærsluþörfin og var framfærslan hækkuð í einu skrefi í þeim tilvikum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Sem dæmi um skekkju í framfærslulánum LÍN til námsmanna erlendis megi nefna að lán til nemenda sem stundi nám í Póllandi sé 801 evra á mánuði á meðan framfærsluþörf þar í landi sé einungis 366 evrur á mánuði. „Því eru íslenskir námsmenn í Póllandi að taka lán sem nemur ríflega tvöfaldri framfærsluþörf þess lands. Í Litháen eru lánin 65% umfram framfærsluþörf og 12% umfram í Þýskalandi, svo nokkur dæmi séu tekin. Þá eru þess dæmi að framfærsla íslenskra námsmanna sé öllu hærri en nettólaun heimamanna, til að mynda í Ungverjalandi þar sem námsmenn fá að jafnvirði 1.147€ í framfærslulán frá LÍN, en meðallaun Ungverja, eftir skatt, eru að jafnvirði tæpar 560€ á mánuði.“

Stærsta skýringin á þessari skekkju sé frá árinu 2009-2010 þegar framfærslugrunnurinn hafi verið hækkaður um 20%, bæði hjá námsmönnum innlendis og erlendis, með vísan til hækkunar á verðlagi hér innanlands. „Þær verðlagsbreytingar hafa ekki áhrif með sama hætti á framfærslugrunn erlendis þar sem sjóðurinn lánar í erlendri mynt. Því leiddu þær breytingar til þess að lán samkvæmt framfærslugrunni erlendis hækkaði um 20% umfram þörf, eða allt að 500 milljónir króna á ári (nú samtals um 3.000 milljónir). Hafa ber í huga að almennt innheimtist aðeins helmingur námsláns og telst hinn helmingurinn styrkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert