Um 20 kör af fiski enduðu á veginum

Frá vettvangi í gær í Hófaskarði.
Frá vettvangi í gær í Hófaskarði. Mynd/Halldór Jónsson

Flutningabifreið með tengivagn rann út af veginum um Hófaskarð í gær og voru björgunarmenn sendir á vettvang í verðmætabjörgun þar sem heill vagn af fisk hafði lent á veginum. Björgunarmenn voru í um 7 klukkustundir að koma fiskinum aftur í kör.

Karl Ásberg Steinsson, formaður björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn, segir í samtali við mbl.is að talsverð hálka hafi verið á staðnum og bíllinn og vagn runnið niður brekku. Vagninn hafi farið fram úr bílnum og við það hafi hlið á vagninum opnast.

Segir hann að mest af fiskinum sem var í vagninum hafi endað á veginum, en það var í heild um 20 kör. Segir hann sjö björgunarmenn hafa verið að störfum í gærkvöldi, en um er að ræða verðmætabjörgun.

Aðspurður um færð í kringum Þórshöfn segir hann að þar sem þæfingur og snjóþekja en ekki ófært. Útkallið í gær er eina útkallið sem sveitin þeirra hefur fengið síðasta sólarhringinn.

Alls var um að ræða um 20 kör af fiski.
Alls var um að ræða um 20 kör af fiski. Mynd/Halldór Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert