Skipa starfshóp um skattaundanskot og skattaskjól

Ríkisskattstjóri mun meðal annars eiga fulltrúa í starfshópnum.
Ríkisskattstjóri mun meðal annars eiga fulltrúa í starfshópnum. mbl.is/Golli

Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að stofna starfshóp sem á að gera tillögur að aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt. Hópurinn á að skila skýrslu um tillögur fyrir lok júní.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lagði tillögun um stofnun starfshópsins fram. Hópurinn á að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem saman eiga að mynda aðgerðaáætlunina.

Í hópnum verða fulltrúar forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa frá Ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Starfshópurinn skal skila skýrslu með tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar eigi síðar en 30. júní 2016, að því er kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ráðuneytið segist þegar hafa gert þeim embættum sem fara með skattframkvæmd, eftirlit, rannsóknir og innheimtu ljóst að það sé reiðubúið til viðræðna við þau um ráðstafanir til að þau geti komist yfir sem fyllstar upplýsingar um eignir þeirra sem framtalsskyldir eru hér á landi í skattaskjólum og að ríkur vilji sé til þess að tryggja að embættin séu þess megnug að vinna úr þeim. Það eigi bæði við um úrvinnslu þeirra gagna sem þegar hafa verið keypt og önnur gögn sem mögulegt yrði að afla.

„Fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa þegar borist ítarleg svör frá umræddum stofnunum og vinnur að undirbúningi aðgerðaáætlunar á grundvelli þeirra svara og annarra atriða sem eru viðeigandi. Þá undirbýr ráðuneytið nú sérstakt mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum og mun það nýtast til að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi um leið og fjárhagsleg þýðing þess að unnið sé gegn undanskotum verður staðfest,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningin á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert