„Hann á ekkert“

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Norden.org

Hópur Íslendinga í Kaupmannahöfn hefur tekið höndum saman og aðstoðað mann á sjötugsaldri við að koma sér fyrir í félagsíbúð í borginni. Maðurinn er Íslendingur en hefur verið á götunni í Kaupmannahöfn í sjö ár.

Björg Magnúsdóttir starfar sem túlkur í Kaupmannahöfn og kynntist manninum í starfi sínu fyrir sjö árum. Maðurinn hefur síðustu árin fengið að gista á næturnar í heimili fyrir utangarðsmenn en þurft að vera úti á daginn. Að sögn Bjargar er maðurinn sjómaður frá Snæfellsnesi sem hefur verið í neyslu alla sína tíð.

Að sögn Bjargar fékk maðurinn samþykkta umsókn sína um félagsíbúð í borginni fyrir mánuði síðan og gat hún séð honum fyrir handklæðum og nokkrum hlutum í eldhúsið. „Hann vantaði allt annað þar sem hann á ekkert,“ segir Björg í samtali við mbl.is. Hún ákvað að athuga hvort að einhverjir Íslendingar í Kaupmannahöfn gætu aðstoðað og setti því inn færslu á Facebook hópinn „Íslendingar í Kaupmannahöfn“ í gærkvöldi og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.

„Ég sat bara fyrir framan tölvuna meðkökk í hálsinum og gæsahúð,“ segir Björg en fjölmargir hafa boðið fram húsgögn og aðra hluti sem geta nýst manninum. Þá hefur íslenskur maður búsettur í Hróarskeldu boðist til að ferja hlutina til mannsins.  Hún segir næstu skref að skipuleggja akstursleiðina til þess að ná í alla hlutina og hafa samband við þá sem hafaboðið sig fram til þess að bera hlutina upp á aðra hæð þar sem maðurinn býr.

 Björg segir manninn hafa ekki beðið um neitt og því hafi söfnunin komið honum í opna skjöldu. „Hann biður aldrei um neitt og er bara sáttur við að geta læst sinni hurð. Hann varofboðslega glaður og hissa þegar ég sagði honum þetta en með mestar áhyggjur af því að hann getur ekki gefið neitt í staðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert