Sameiginlegur framboðsfundur formannsefna

Þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Oddný Harðardóttir og Magnús …
Þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Oddný Harðardóttir og Magnús Orri Schram eru öll í kjöri til formanns Samfylkingarinnar.

Formannsframbjóðendur Samfylkingarinnar héldu sameiginlegan framboðsfund  á Akureyri í dag, en frestur til að skila inn framboði í formannskjörið rann út á hádegi. Í framboði eru þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir.

Frambjóðendur héldu stuttar framboðsræður þar sem þeir kynntu sig og áherslumál sín að því er segir í fréttatilkynningu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, reið á vaðið.  Lagði hann í tölu sinni áherslu á kjör ungs fólks og spurði hvort ætti að láta fyrirsjáalegt góðæri næstu ára verða að ofsagróða fárra eða verða til þess að jafna kjörin og skapa ungu fólki tækifæri til að koma sér þak yfir höfuðið.

Sækist ekki eftir fyrsta sæti í sínu kjördæmi nái hann formannskjöri

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lagði í sínu máli áherslu á nauðsynlegar stefnubreytingar og var hann, að því er segir í tilkynningunni, einn frambjóðenda sem taldi nauðsynlegt að Samfylkingin breytti stefnumálum sínum. Þá tilkynnti Helgi að ef hann næði kjöri til formanns, myndi hann ekki sækjast eftir fyrsta sæti á lista síns kjördæmis.

Magnús Orri Schram, varaþingmaður, lagði áherslu á nútímavæðingu Samfylkingarinnar. Flokkurinn þyrfti að kalla til nýtt fólk og finna nýja málsvara til þess að ná til unga fólksins. 

Síðust steig á stokk Oddný Harðardóttir þingkona, sem einnig ræddi ásýnd flokksins. Sagði hún mikilvægt að tala fyrst og mest um jafnaðarmannastefnuna en ekki um aðra flokka. Bæta þurfi heilbrigðisþjónusta og að nota eigi skatta til að jafna kjör almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka