Umsagnarferli um 3. áfanga rammans hafið

Urriðafossvirkjun er meðal þeirra virkjana sem eru í nýtingarflokki.
Urriðafossvirkjun er meðal þeirra virkjana sem eru í nýtingarflokki. Sigurður Bogi Sævarsson

Í kvöld hófst opið umsagnarferli fyrir drög að lokaskýrslu 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, svokallaðrar rammaáætlunar. Voru drögin fyrst kynnt í lok mars,  en í kjölfarið fylgdi þriggja vikna kynningar- og samráðsferli sem lauk 20. apríl. Sextán umsagnir bárust og hefur verkefnastjórnin nú farið yfir þær. Við endurskoðunina núna var Austurgilsvirkjun bætt í nýtingarflokk, en hún hafði áður verið í biðflokk þar sem ekki höfðu borist nægjanleg gögn til að klára matsferlið.

Verkefnisstjórn 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar Drög að lokaskýrslu 16. maí 2016

Frá og með deginum í dag hefst því lögbundið 12 vikna umsagnarferli þar sem almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Umsagnarferlinu lýkur á miðnætti miðvikudaginn 3. ágúst 2016.  

Í skýrslu verkefnastjórnarinnar kemur fram að áætlað sé að virkjunin geti framleitt 35 megavött og að lónstærð verði 690 hektarar. Lónin eru áformuð suður af Drangajökli á Vestfjörðum, en fram kemur að áhrif virkjana á beitarhlunnindi séu lítil. Þar sé lítið gróið land og er ein ástæða flokkunarinnar hversu lítil áhrif virkjunin er talin hafa bæði með tilliti til ferðamennsku, beitar og veiði.

Yfirlitsmynd yfir vatnasvið og virkjanahugmyndir fyrir Austurgilsvirkjun.
Yfirlitsmynd yfir vatnasvið og virkjanahugmyndir fyrir Austurgilsvirkjun. Mynd/Orkustofnun

Virkjunin kom ekki til mats hjá faghópi 1 áður en drögin voru kynnt 31. mars á þessu ári, en gögn þóttu ófullnægjandi að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands. Virkjunaraðilinn skilaði viðbótargögnum um þessa þætti á meðan á svonefndu fyrra umsagnarferli stóð í apríl. Segir í skýrslunni að ekki hafi unnist tími til að leggja mat á gæði þessara gagna fyrir upphafsdag opins umsagnarferlis um tillögu verkefnisstjórnar í dag (11. maí) og því liggi verðmæta- og áhrifaeinkunnir ekki fyrir. „Verkefnisstjórn leggur engu að síður til, í ljósi framkominna gagna, að virkjunarkosturinn verði í orkunýtingarflokki, en mun taka þá tillögu til endurskoðunar í ágúst 2016 að loknu umsagnarferli og að fengnum umsögnum um gæði gagna og niðurstöðum faghóps 1.

Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk:  Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.

Í verndarflokk fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita).

Í biðflokk fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar og Búrfellslundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert