Borgarstjóri allra Lundúnabúa

Sadiq Khan er nýr borgarstjóri Lundúna
Sadiq Khan er nýr borgarstjóri Lundúna AFP

Það vakti heimsathygli þegar Lundúnabúar kusu sér nýjan borgarstjóra um síðustu helgi en Sadiq Khan sker sig úr hópi forréttindastjórnmálamanna. Hann er sonur innflytjenda og er jafnframt múslimi, sá fyrsti sem er borgarstjóri vestrænnar stórborgar. Hann er einn af átta systkinum, sjö strákum og einni stelpu. Foreldrar hans, Amanullah og Sehrun Khan, fluttu til Bretlands skömmu fyrir fæðingu hans en Khan kom í heiminn 8. október árið 1970 og er því 45 ára. Faðir hans var strætóbílstjóri, eins og margoft kom fram í kosningabaráttu hans, og móðir hans var saumakona. Hann segir að vinna þeirra hafi fært honum trú á stéttarfélögin. Faðir hans hafi verið í stéttarfélagi og fengið ágætis kaup og vinnuaðstæður meðan sú hafi alls ekki verið raunin með móður hans.

Hann ólst upp í suðvesturhluta London en fjölskyldan bjó í félagslegu húsnæði. Hann deildi koju með bróður sínum þangað til hann flutti að heiman. Hann gekk í Ernest Bevin-grunnskólann en á þessum tíma var orðið Bevin-strákarnir samheiti fyrir slæma hegðun.

Hann velti því fyrir sér að verða tannlæknir en ákvað að læra lögfræði eftir að kennari hans benti honum á að hann væri alltaf að rífast. Sjónvarpsþátturinn LA Law var líka áhrifaþáttur. Eftir nám náði hann skjótum frama hjá lögfræðistofu en árið 2005 varð hann þingmaður Verkamannaflokksins í Tooting. Hann náði frama í flokknum og varð ráðherra og fyrsti músliminn í ríkisstjórninni en þá voru aðeins fjórir þingmenn múslímar. Hann sagði í viðtali við Guardian árið 2010 að honum hefði þótt skorta fyrirmyndir í samfélagi breskra múslima. „Það voru reiðir menn með skegg en enginn sem sagði: Reyndar finnst mér bara mjög gott og fara vel saman að vera Breti, múslimi og Lundúnabúi.“

Þó að hann sé fyrirmynd og frumkvöðull hefur hann lagt áherslu á að hann vilji vera vinnusamur borgarstjóri allra borgarbúa. Þegar hann tók formlega við embætti borgarstjóra við athöfn í Southwark-dómkirkjunni ávarpaði hann viðstadda m.a. með þessum orðum: „Ég er staðráðinn í því að leiða gagnsæjustu, virkustu og aðgengilegustu borgarstjórnina...og að vera fulltrúi hvers einasta samfélags, hvers einasta hluta borgarinnar okkar, sem borgarstjóri allra Lundúnabúa.“

Líka lögfræðingur

Khan kynntist eiginkonu sinni Saadiya Ahmed árið 1994 en það er jafnframt árið sem þau giftust. Á þessum tíma var hann í laganámi við Háskólann í Norður-London. Þau eiga ýmislegt sameiginlegt en Saadiya er einnig lögfræðingur og ótrúlegt en satt er hún líka dóttir strætóbílstjóra líkt og Sadiq sjálfur.

Þau eiga tvær dætur. Anisah er fædd árið 1999 og Ammarah kom í heiminn tveimur árum síðar.

Þurfa jákvæðar fyrirmyndir

Kjöri Khan var fagnað í Pakistan og fréttir af því prýddu forsíður allra helstu dagblaða landsins. BilawalBhutto, formaður Pakistanska þjóðarflokksins og sonur fyrrverandi forsætisráðherra,Benazir Bhutto, óskaði honum til hamingju með nýja starfið á Twitter og bætti við að breskir Pakistanar þörfnuðust jákvæðra fyrirmynda.
Annar leiðtogi í stjórnarandstöðunni og fyrrverandi krikketleikarinn Imran Khan, sendi líka hamingjuóskir á sama samfélagsmiðli. Imran Khan var óbeint tengdur í kosningabaráttuna nú þar sem fyrrverandi eiginkona hans,Jemima, er systir helsta andstæðings Sadiq Khan, Zac Goldsmith.

Á Twitter var skrifað mikið um nýja borgarstjórann og líka bent á velgengri annarra breskra múslima og var þar nafn tónlistarmannsins Zayn Malik, fyrrum meðlims One Direction, nefnt hvað oftast en hann á ættir að rekja til Pakistans. Blaðamaðurinn Bina Shah benti þó á að í Pakistan yrði því ekki eins vel tekið ef borgarstjóri Karachi væri sonur innflytjanda sem væri strætóbílstjóri.

Betri strætó

Khan hefur alla tíð lagt mikla áherslu á samgöngur enda var hann ráðherra samgöngumála í ríkisstjórn Gordons Browns. Það ætti því ekki að koma á óvart að eitt hans fyrsta verk hafi verið á þessu sviði. Hann tilkynnti í vikunni að í september tæki gildi nýtt fargjald í almenningssamgöngukerfi borgarinnar. Með því verður hægt að taka fleiri en einn strætó ef ferðalagið er á sama klukkutímanum. Fargjaldið kostar um 270 krónur og hjálpar þeim sem þurfa að treysta á strætókerfið umfram lestarsamgöngur eins og í stórum hluta Suður-London. Khan er ákveðinn í að koma í veg fyrir að mikill ferðakostnaður stöðvi fólk í að sækja vinnu.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka