Skylda að vernda réttindi íbúa

Unnur Brá Konráðsdóttir á ráðstefnunni í Grænlandi.
Unnur Brá Konráðsdóttir á ráðstefnunni í Grænlandi. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og varaforseti Vestnorræna ráðsins, lagði sérstaka áherslu á skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja til að vernda réttindi íbúa svæðisins á ráðstefnunni Hringborð norðurslóða í Nuuk í dag.

Hún sagði að alþjóðastofnanir, fyrirtæki og embættismenn ættu ekki einir að leiða veginn, heldur þjóðkjörnir fulltrúar svæðisins, að því er kemur fram í tilkynningu.

Unnur bætti við að til viðbótar við að skiptast á skoðunum og vitneskju um málefni svæðisins gætu þingmenn haft bein áhrif á ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins um málefni norðurslóða, eins og starf Vestnorræna ráðsins sannaði. Nú þegar ríkisstjórnir væru ekki einungis að missa forræði í hnattvæddum heimi heldur einnig að deila valdinu með fjölda aðila, væri hlutverk þjóðþinga mjög þýðingarmikið.

Alls sækja 350 fulltrúar frá 20 löndum Hringborð norðurslóða,  m.a. fjöldi sérfræðinga, vísindamanna, stjórnmálamanna og forystumanna í atvinnulífi, ásamt embættismönnum frá Íslandi, Kanada og fleiri löndum.

Frétt mbl.is: Hringborð norðurslóða á Grænlandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert