Hringborð norðurslóða á Grænlandi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar hann ávarpaði gesti Arctic …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar hann ávarpaði gesti Arctic Circle í Hörpu í fyrra. mbl.is/Golli

Þing sem Hringborð norðurslóða, Arctic Circle, efnir til í samstarfi við landstjórnina á Grænlandi hefst í dag í Nuuk, höfuðstað Grænlands.

Þingið sækja 350 fulltrúar frá 20 löndum, m.a. fjöldi sérfræðinga, vísindamanna, stjórnmálamanna og forystumanna í atvinnulífi, ásamt embættismönnum frá Íslandi, Kanada og fleiri löndum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, og Okalik Eegeesaik, formaður Inúítaráðsins, flytja ræður við setningu þingsins, að því er kemur fram í tilkynningu.

Meðal þátttakenda í Grænlandsþinginu eru fjölmargir forystumenn samtaka frumbyggja á norðurslóðum og þátttakendur frá grænlenskum stjórnvöldum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og fræðasamfélagi. Síðasta dag þingsins verða haldnar málstofur í háskóla Grænlands.

Nuuk á Grænlandi.
Nuuk á Grænlandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þriðja þingið í röðinni 

Þingið er hið þriðja í röðinni af svokölluðum Arctic Cricle Forums sem Hringborð norðurslóða efnir til, auk hins fjölmenna alþjóðaþings Arctic Circle sem haldið er í Reykjavík í október á hverju ári. Fyrri þingin tvö voru haldin í Alaska og Singapúr í fyrra.

Á Grænlandi verður fjallað um fjölmarga þætti atvinnulífs á norðurslóðum; ferðaþjónustu, siglingar, flugsamgöngur, fiskveiðar og aðra nýtingu auðlinda sjávar sem og nýtingu náttúruauðlinda á landi, fjárfestingar á norðurslóðum og eflingu innviða.

Atvinnulíf og frumbyggjar

Einnig verður rætt um hvernig uppbygging atvinnulífs á norðurslóðum getur nýst samfélögum frumbyggja og um rétt íbúanna til að njóta ávinnings af þróuninni á komandi árum.

Á málstofunum í háskóla Grænlands verður einkum rætt um nýsköpun og þróun menntunar.

Heildardagskrá Arctic Circle Greenland Forum má nálgast á heimasíðu Arctic Circle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka