235 milljónir í tjónabætur í fyrra

Frá Skaftárhlaupi á síðasta ári.
Frá Skaftárhlaupi á síðasta ári.

Þrír tjónsatburðir urðu árið 2015 sem höfðu áhrif á starfsemi Viðlagatryggingar Íslands. Samanlagðar tjónabætur vegna þeirra nema um 235 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi stofnunarinnar sem var kynntur í dag.

Þann 28. ágúst varð vatnstjón á Siglufirði eftir að rennsli Hvanneyrarár hafði margfaldast. Ruddi hún sér leið upp úr farvegi sínum og flæddi inn í hús í bænum. Samtals liggja fyrir 70 tjónamöt hjá Viðlagatryggingu Íslands vegna tjóna á Siglufirði og nema heildar tjónabætur ríflega 45 milljónum króna, að því er kemur fram í ársskýrslunni. 

Frétt mbl.is: Viðlagatrygging skoðaði aðstæður á Siglufirði

120 milljóna tjón vegna Skaftárhlaups

Vegna Skaftárhlaups sem hófst í lok september varð verulegt tjón á brú yfir Eldvatn á Ásum. Tjón varð á ljósleiðara sem liggur yfir Skaftá, milli Búlands og Skaftártungu, og loks varð tjón á lausafé í sumarhúsi. Samtals liggja þrjú tjónamöt fyrir hjá stofnuninni vegna þessa og nema heildartjónabætur rúmlega 120 milljónum króna.

Frétt mbl.is: Hlaupið á leið undan jöklinum 

Í lok síðasta árs urðu svo vatns- og sjávarflóð á Austurlandi, auk þess sem krapaskriða féll á bæ í Hrafnkelsdal. Mesta tjónið varð í Fjarðarbyggð en einnig varð tjón á vátryggðum mannvirkjum á Breiðdalsvík. Mesta tjónið í Fjarðarbyggð varð í Neskaupsstað og á Eskifirði. Samtals liggja fyrir 70 tjónamöt hjá Viðlagatryggingu Íslands vegna tjónanna og nema heildartjónabætur um 70 milljónum króna.

Frétt mbl.is: Ljóst að mikið tjón hefur orðið

Bryggja við sjóhús á Eskifirði skemmdist í flóðinu í fyrra.
Bryggja við sjóhús á Eskifirði skemmdist í flóðinu í fyrra. mbl.is/Jens Garðar Helgason

Yfir 20 milljarðar vegna jarðskjálfta

Viðlagatrygging Íslands hefur á liðnum árum lagt áherslu á gagnasöfnun um alla tjónsatburði aftur til ársins 1995. Stærstur hluti tjóna er af völdum jarðskjálfta. Framreiknað tjón með byggingarvísitölu vegna skjálftanna á Suðurlandi árið 2000 var í september 2015 um 7,6 milljarðar króna og vegna jarðskjálftans á Suðurlandi 2008 var tjónið um 13,3 milljarðar króna, samkvæmt skýrslunni.

Ellefu mál vegna Suðurlandsskjálftans

Enn eru ellefu mál vegna níu fasteigna á borði stofnunarinnar vegna Suðurlandsskjálftans. Í svari Huldu Ragnheiðar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar Íslands, við fyrirspurn mbl.is kemur fram að fjögur úrskurðarmál vegna þriggja fasteigna eru í vinnslu hjá stjórn stofnunarinnar. Jafnframt eru sjö úrskurðarmál vegna sex fasteigna í vinnslu hjá úrskurðarnefnd. Elsta úrskurðarmálið hjá stjórn er frá árinu 2015 og elsta úrskurðarmálið hjá úrskurðarnefnd er frá 2013.

Tjón af völdum Suðurlandsskjálftans árið 2008.
Tjón af völdum Suðurlandsskjálftans árið 2008. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

27 snjóflóð á 20 árum

Í ársskýrslunni kemur fram að 27 snjóflóð hafi verið skráð hjá stofnuninni síðustu 20 árin. Fjórtán þeirra urðu árið 1995 og bera fjögur þeirra um 88% af öllum tjónskostnaði vegna snjóflóða á þessu 20 ára tímabili. Í skýrslunni segir að frá árinu 1995 hafi risið öflugar snjóflóðavarnir á öllum helstu snjóflóða hættusvæðum, sem draga mjög úr líkum á tjóni af völdum snjóflóða á Íslandi.

Áhrif jarðskjálfta við höfuðborgarsvæðið ofmetin

Í skýrslunni kemur einnig fram að mikil áhersla hafi verið lögð á faglegt og gegnsætt mat á áhættu Viðlagatryggingar af völdum náttúruhamfara.

„Eftir að settar voru fram niðurstöður úr samevrópsku verkefni (SHARE) á sviði jarðskjálftavár, sem voru talsvert ólíkar því sem niðurstöður Viðlagatryggingar Íslands bentu til, var ákveðið að yfirfara og endurgera matið á jarðskjálftavánni,“ segir í skýrslunni.

„Viðlagatrygging Íslands hefur nú í samstarfi við Pál Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði og Bjarna Bessason prófessor í byggingarverkfræði, unnið að endurskoðun á upptakasvæðum jarðskjálfta á Íslandi og eiginleikum þeirra. Fyrstu niðurstöður úr því verkefni lágu fyrir á haustdögum 2015, en þær benda til þess að áhrif jarðskjálfta í grennd við höfuðborgarsvæðið hafi verið verulega ofmetin í SHARE-verkefninu. Á árunum 2016 og 2017 er gert ráð fyrir að enn frekari greining fari fram og í kjölfarið á því kynntar niðurstöður sem verði ein af meginforsendunum í áhættumati Viðlagatryggingar Íslands.“

Sambærileg skilyrði á Nýja-Sjálandi

Meginþema ársfundarins í dag var fræðslufyrirlestur um hvaða afleiðingar sambærilegir skjálftar og urðu á Nýja-Sjálandi 2010 og 2011 myndu hafa á Íslandi. Að sögn Huldu Ragnheiðar er nauðsynlegt að geta borið sig saman við önnur lönd sem búa við sambærileg skilyrði. „Ef við tökum saman jarðfræðileg skilyrði og regluverkið sem þar er í gildi er Nýja-Sjáland samanburðarhæfast við Ísland af öllum löndum. Við höfum mikið verið að vinna með þeim og máta okkur við þá,“ segir Hulda Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert