Short í áttunda sinn á Íslandi

Nigel Short dregur um liti í fyrstu skákinni úr hendi …
Nigel Short dregur um liti í fyrstu skákinni úr hendi Viggós Einars Hilmarssonar, fjármálastjóra MótX, sem stendur að einvíginu ásamt Hróknum. Hjörvar Steinn fylgist sposkur með. Ljósmynd/Hrafn Jökulsson

Enski stórmeistarinn í skák, Nigel Short, er kominn til Íslands en um helgina teflir hann við Hjörvar Stein Grétarsson í Salnum í Kópavogi  í svokölluðu MótX-einvígi. Fleiri viðburðir eru fyrirhugaðir. Fjöltefli verður í Smáralind í dag og rokktónleikar verða á Húrra á sunnudag þar sem Short grípur í hljóðnemann með íslenskum skákáhugamönnum og rokkurum.

„Ég held að þetta ætti að verða skemmtileg helgi. Ég er ekkert svakalega vel undirbúinn því ég hef verið upptekinn við ýmislegt annað en vonandi verður þetta í lagi,“ segir Short, eldhress í símanum.

Hann býst við hörkueinvígi við Hjörvar Stein, sem er yngsti stórmeistari Íslands. „Þetta verður áhugavert einvígi og ég býst við hörkuskákum. Það er einmitt það sem áhorfendur vilja sjá.“ Þeir munu tefla sex atskákir með 25 mínútna umhugsunartíma. Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir komu Short til landsins.

Hjörvar fæddist einmitt sama ár og Short tefldi við Garry Kasparov árið 1993. „Það virðist vera heil eilífð síðan,“ segir Short og hlær dátt.

Erfitt að spila fjöltefli

Hann spilar við um 15 manns í Smáralind í dag. Aðspurður segist hann gera mikið af því að spila fjöltefli víða um heiminn og segir það fyrst og fremst ánægjulegt fyrir þá sem spila gegn honum. „Þetta getur verið dálítið mikið álag en þetta er samt eitt af því sem er gott við skákina.  Í fjölteflum getur fólk sem er í skákklúbbum spilað gegn sumum af þeim bestu í heiminum. Það er ekki hægt í mörgum íþróttum.“

Áttunda sinn til Íslands

Short var undrabarn í skák. Hann varð stórmeistari 19 ára, þá yngstur allra í heiminum sem báru þennan eftirsótta titil.

Þetta er í áttunda sinn sem hann kemur til Íslands en fyrst kom hann hingað til að tefla í Vestmannaeyjum fyrir 31 ári síðan. Síðast tefldi hann hér á landi á Evrópumóti landsliða í nóvember fyrra. „Það er alltaf gaman að tefla á Íslandi. Þetta er sérstakur staður og allir mjög hlýlegir og vinalegir. Það hefur margt breyst í landinu síðan ég kom hingað fyrst.“

Ekki dauður úr öllum æðum

Hann kveðst vera mjög virkur í skákinni og hefur spilað á Nýja-Sjálandi, Gíbraltar, Írlandi, Ástralíu. Taílandi og Englandi á árinu. Eftir dvölina á Íslandi teflir hann líklega í Íran og í Aserbaidjan, auk þess sem mót í Þýskalandi og á Englandi eru fyrirhuguð.

„Ég er ekki dauður úr öllum æðum og ekki á þeim buxunum að fara að hætta,“ segir hann hress.

Syngur með rokkhljómsveit á Húrra

Á sunnudagskvöld stígur hann á svið á skemmtistaðnum Húrra með rokksveitinni The Knight B4 ásamt íslenskum tónlistarmönnum. „Ég er mjög taugaóstyrkur. Ég er með lögin með textunum fyrir framan mig og vonandi get ég lært nokkur lög. Ég er ekki vanur því að syngja en hef gert það nokkrum sinnum. Þetta verða ekki langir tónleikar. Þeir verða alla vega ekki fjórir tímar eins og hjá Bruce Springsteen en ekki jafnstuttir og hjá Bob Dylan í Newport, sem voru 15 mínútur. Við munum gera okkar besta.“

Nigel Short vonast eftir skemmtilegri helgi á Íslandi.
Nigel Short vonast eftir skemmtilegri helgi á Íslandi. Ljósmynd/Hrafn Jökulsson
Short á æfingu ásamt rokksveitinni The Knight B4
Short á æfingu ásamt rokksveitinni The Knight B4
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert