Sigmundur ætlar að halda áfram

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að ef ég hefði ekki hætt væru Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur ekki í ríkisstjórn. Hún hefði farið frá í ákveðinni atburðarás,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun. 

„Ég taldi mikilvægt að tryggja það að þessi góðu verkefni sem hafa verið í gangi næðu fram að ganga. Það hefur gengið ótrúlega vel. Ég var bjartsýnn frá upphafi [ríkisstjórnarsamstarfsins, innsk. blm.] en það hefur gengið enn betur,“ sagði Sigmundur.

Hann lýsti í viðtalinu samskiptum sínum á fundi sínum með forseta Íslands áður en hann sagði af sér sem forsætisráðherra. 

„Myndin breytist eftir því sem meiri upplýsingar koma fram. Fólk hefur þá almennt meira svigrúm til að líta yfir farinn veg og setja inn þær upplýsingar í myndina sem bætast við.“

„Það er oft þannig, ekki síst þessi síðustu misserin, bæði á Íslandi og annars staðar, að það verður uppi fótur og fit af ýmsum ástæðum. Það þarf oft ekki mikið til og það getur skapað alls konar hættu ef ástand í samfélagi er þannig að menn eru fljótir að rjúka upp og dæma,“ segir Sigmundur.

„Forsetinn rauk til í óðagoti og geðshræringu“

Hann segist ekki hafa farið á Bessastaði á fund með forsetanum til þess að „heimta uppáskrifaða heimild til að rjúfa þing.“

„Það sér það hver maður á þessum tíma að ég var að reyna eins og ég gat að halda ríkisstjórninni saman. Hún þyrfti að halda áfram. Þess vegna sendi ég frá mér þessa tilkynningu áður en ég fór á Bessastaði.“

„Það segir sig sjálft að þegar liggur fyrir vantrauststillaga og þingrof og þingmenn annars stjórnarflokksins eru ekki tilbúnir til að segja beint út að þeir muni fella slíka tillögu, þá er stjórnin fallin.“

„Þegar sótt er að ríkistjórn, þá er ekki um annað að ræða en að stjórnarflokkar standi saman. Annars ekki ástæða til annars en að sætta sig við að stjórnin væri fallin og rjúfa þing. Ég hefði aldrei gert það á meðan meirihluti var fyrir stjórnarsamstarfi.“

Hann segir Ólaf Ragnar hafa rokið til í óðagoti og geðshræringu þegar hann hélt blaðamannafundinn á Bessastöðum. „Þegar ég kom af fundinum var ég brosandi og glaður. Forsetinn rauk til í óðagoti og geðshræringu og hélt blaðamannafund og braut áralanga hefð. Ég hafði fengið staðfet það sem ég óttaðist. Þótt það væri ekki ánægjulegt þá var það léttir því ég vissi að ég hefði þurft að gera það sem ég gerði.“

Trúnaðarbrestur á milli forseta og forsætisráðherra

Hann segir Ólaf Rangar hafa brotið áralanga hefð um trúnað á milli forseta og forsætisráðherra. Blaðamannafundur forsetans hafi verið til þess fallin að niðurlægja forsætisráðherra. 

„Ég byggi þetta bara á lýsingum af fundinum þar sem ég sá hann ekki sjálfur. Það gekk mikið á hjá mér á meðan. En það er alveg til í myndinni að menn telji best að upphefja sjálfa sig með því að niðurlægja aðra. Ég lít samt eftir sem áður á þennan fund og framkomu forsetans sem enn frekari staðfestingu á mikilvægi þess að ég gerði það sem ég gerði. Að ítreka við forsetann sem ég hafði áður gert í símtali við hann að ég liti svo á að ef samstarfsflokkurinn gæti hugsað sér að styðja vantraust og þingrof þá væri ekki rétt hjá mér að bíða með að rjúfa þing. Ég vildi gera honum grein fyrir mati mínu fyrir fram. Ég fór ekki með þingrofstillögu til hans. Ég tók ekkert slíkt með mér,“ segir Sigmundur.

Ætlar að halda áfram

Sigmundur segist ætla að halda áfram í stjórnmálum. „Ég ætla að gera það. Ég ætla að bjóða mig fram til áframhaldandi þjónustu. Ég hef áður sagst ætla að vera í pólitík á meðan ég tel mig geta gert gagn. Gríðarleg tækifæri eru fram undan fyrir Ísland en það skiptir máli hvernig þau eru nýtt.“

„Ég lagði upp með plan áður en ríkisstjórnin tók við. Það gekk út á að byrja á að klára forsenduatriði. Það var skuldastaða heimilanna. Hún hefur batnað hraðar en líklega dæmi eru um í sögunni. Staða ríkissjóðs var hitt grundvallarmálið. Þar skiptir máli að hætta að safna skuldum og taka á þessum vanda fortíðar og efnahagshrunsins með róttækum málum í haftamálum og stöðugleikamálunum. Þetta voru allt undirbúningsmál.“

Segir hann að fram undan séu verkefni sem ganga út á að laga fjármálakerfið þannig að „fólk geti eignast eigið húsnæði án þess að gerast vaxtaþrælar.“

Hann segist vilja halda áfram sem formaður flokksins og mun á næstu dögum ferðast um landið til að ræða við flokksmenn. 

Hefði átt að gera hluti öðruvísi

Sigmundur segist hafa getað gert ákveðna hluti öðruvísi eftir Kastljósviðtalið örlagaríka. „Ég var kannski svolítið naív og trúði því að þessir menn hafi viljað afla upplýsinga og koma réttum upplýsingum á framfæri,“ sagði Sigmundur.

Lýsir ekki yfir stuðningi við ákveðinn forsetaframbjóðanda

Sigmundur Davíð ræddi forsetakosningarnar stuttlega en sagðist ekki ætla að lýsa yfir stuðningi við ákveðinn frambjóðanda. „Ég mun meta frambjóðendur í forsetakosningunum og kjósa þann sem ég tel best til þess fallinn að standa vörð um ákveðin gildi. Ekki er æskilegt að stjórnmálamenn lýsi því yfir hvern þeir styðji en ég mun fylgjast með frambjóðendum næstu vikurnar. Ég mun fylgjast með og skoða hverjir eru tilbúnir til að vera forseti landsins alls og hverjir eru vinir landsbyggðarinnar.“

Telur ekki liggja á kosningum í haust

Sigmundur sagði í viðtalinu að ekki liggi á Alþingiskosningum nú í haust. „Það er rétt að þeir [formenn stjórnarflokkanna innsk. blm.] lýstu því yfir að þeir væru reiðubúnir að kosningar færu fram snemma ef öll þau mál sem þurfa að klárast verða búin þá. Ég sé það ekki gerast fyrir september eða október. Sé það hins vegar afstaða beggja stjórnarflokkanna að þeir vilji halda kosningar fyrr en var áætlað þá verður það þannig.“

„Það sem ég heyri á fólki, ekki bara í mínum flokki heldur líka þingmönnum annarra flokka og á almenningi er að menn telji ekki liggja á kosningum í haust. Það er mjög margt bagalegt við það að fara í kosningar á þeim tímapunkti,“ segir Sigmundur.

Sigmundur Davíð segir vantrauststillögu stjórnaranstöðuflokkanna er ekki tilkomna vegna frammistöðu …
Sigmundur Davíð segir vantrauststillögu stjórnaranstöðuflokkanna er ekki tilkomna vegna frammistöðu ríkisstjórnarinnar mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert