Hvað felst í aflandskrónulögunum?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram frumvarpið og var það samþykkt …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram frumvarpið og var það samþykkt fyrir miðnætti í gærkvöldi.

Rétt fyrir miðnætti í nótt samþykkti Alþingi lög um meðferð krónueigna, svokallaðra aflandskróna. Málið hefur verið sagt mikilvægt í því ferli að afnema fjármagnshöftin og einn af lokapunktum þess að hægt verði að aflétta þeim af almenningi, fyrirtækjum í landinu og lífeyrissjóðum. En hvað felst í lögunum og hvaða áhrif hafa þau?

Heildarumfangið 290 – 319 milljarðar

Samkvæmt upplýsingum á vef forsætisráðuneytisins segir að lögin séu liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta sem hafi verið kynnt í júní á síðasta ári. Fyrsta skrefið hafi verið að leysa vanda slitabúa föllnu bankanna og nú sé komið að því að leysa svokallaðan aflandskrónuvanda. Það verði gert með útboði í næsta mánuði þar sem Seðlabankinn bjóði aflandskrónueigendum að kaupa evrur á ákveðnu viðmiðunargengi.

Aflandskrónur eru krónueignir erlendra einstaklinga eða lögaðila sem gætu haft neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð og stöðu krónunnar ef höft yrðu afnumin beint. Er heildarumfang þessara eigna um 290 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum Seðlabankans í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, en 319 milljarðar samkvæmt lagafrumvarpinu. Eru fjármunirnir meðal annars á fjárvörslureikningum, í skuldabréfum og víxlum.

Allar aflandskrónur fluttar á sérstaka reikninga og 100% bindiskylda

Í lögunum kemur fram að fjármálafyrirtæki sem varðveiti aflandskrónur þurfi að flytja þær á sérstaka reikninga sem verði með höfuðbók 21 í skráningu Reiknistofu bankanna, til að auðvelda alla yfirsýn og skráningu, fyrir 1. september á þessu ári. Í framhaldinu þurfa fjármálafyrirtækin að geyma alla upphæðina á reikningi hjá Seðlabankanum. Þessir reikningar munu bera litla eða enga vexti og því óákjósanlegir fyrir aflandskrónueigendur, sem hingað til hafa getað geymt fjármuni hér á vaxtareikningum eða í skuldabréfum og flutt vexti og arðgreiðslur úr höftum.

Mikið mun mæða á efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um helgina …
Mikið mun mæða á efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um helgina vegna vinnu við nýtt frumvarp um meðferð aflandskrónueignanna. Meirihluti nefndarinnar telur lögin ekki brjóta á stjórnarskrá. mbl.is/Golli

Raunverulegum eiganda aflandskróna verður þó heimilt að taka út af þessum reikningum með fenginni staðfestingu á hver sé raunverulegur eigandi, en hámarksúttekt mun nema einni milljón. Þetta þýðir í raun að stóru eigendur aflandskróna geta ekki tekið þá fjármuni út, en ef einhverjir minni eigendur leynast þar innan um geti þeir tekið allt að einni milljón af reikningi sínum. Komið hefur fram að stærstu eigendur aflandskrónanna séu aðeins nokkrir fjárfestingasjóðir.

Möguleiki á 500 milljóna sektum

Þá er Seðlabankanum heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu við vörslu eignanna á sínum reikningi og þá getur hann lagt á dagsektir og stjórnvaldssektir ef ekki berast umbeðnar upplýsingar frá fjármagnseigendunum. Geta slíkar sektir numið allt að 500 milljónum í tilfelli lögaðila.

Seðlabankinn noti gjaldeyrisvaraforða sinn í útboðið

Seðlabankinn hefur á undanförnum árum safnað upp miklum gjaldeyrisvaraforða og nemur óskuldsettur hluti hans í dag rúmlega 660 milljörðum. Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að Seðlabankinn muni nota þennan varaforða til að greiða fyrir aflandskrónur í útboðinu. Segir hann að bankinn hafi gerbreytt þessari stöðu sinni síðustu tvö ár, en á þeim tíma var gríðarlegt gjaldeyrisflæði inn í landið þar sem ferðaþjónustan hafi skilað sínu.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur.
Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

„Hagnaður“ allt að 116 milljarðar

Í lögunum kemur fram að Seðlabankinn muni halda útboð fyrir aflandskrónueigendur og að miðað verði við viðmiðunargengið 220 krónur á móti einni evru. Í dag er gengið um 140 krónur á móti einni evru og það þýðir því að gengishagnaður upp á 80 krónur á hverja evru myndast í slíkum viðskiptum.

Sé miðað við gengi dagsins á evru, sem er um 140 krónur, gæti „hagnaður“ vegna þessara viðskipta verið allt að 116 milljarðar fyrir Seðlabankann, en málið er nokkuð flóknara en það. Í fyrsta lagi bendir Ásgeir á að Seðlabankinn hafi keypt forðann á síðustu árum og undanfarið hafi krónan verið að styrkjast. Það þýðir að bankinn keypti evrur á hærra gengi, en þó aldrei nálægt 220 krónum. Hann sé því alltaf að hagnast á þessu, en ólíklegt sé að „gjaldeyrishagnaðurinn“ nemi fullum 116 milljörðum. Tekur Ásgeir einnig fram að þar sem peningamagn sé að minnka færist þetta ekki sem hagnaður á ríkisreikning.

Þýðir í raun minna peningamagn í umferð

En hver verða áhrifin af því að Seðlabankinn eignist svona miklar peningaeignir í krónum? Í raun er það Seðlabankinn sem prentar krónur. Með því að eignast fjármunina á ný er peningamagn að hverfa inn í Seðlabankann á ný. Segir Ásgeir að þetta færist ekki að öllu leyti sem hagnaður heldur sé peningamagn í umferð að minnka. Samkvæmt almennum hagfræðikenningum hækkar virði þess fjármagns sem eftir er í umferð til jafns við það hlutfall sem peningamagn dregst saman um. Ásgeir tekur þó fram að það sé ekki raunin alltaf í raunveruleikanum.

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að megintilgangur þess sé að aðgreina aflandskrónueignir tryggilega svo hægt verði að stíga næstu skref í losun fjármagnshafta. Þá segir í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar að ekki liggi fyrir upplýsingar um raunverulega eigendur aflandskróna. Þeir geti jafnvel verið innlendir aðilar og að Seðlabankinn geti kallað eftir upplýsingum um eigendurna sem skylt sé að veita sé þess óskað.

Seðlabanki Íslands mun í næsta mánuði standa að útboði á …
Seðlabanki Íslands mun í næsta mánuði standa að útboði á aflandskrónum. Eftir á að koma í ljóst hvort stærstu eigendur aflandskrónanna muni taka þátt í því útboði. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað gera aflandskrónueigendur?

Það á þó enn eftir að koma í ljós hvort eigendur aflandskróna muni taka þátt í útboðinu. Þeir hafa lýst því yfir að þeim líði vel innan haftanna og þá skiluðu þeir inn umsögn um frumvarpið þar sem efast var um lögmæti frumvarpsins. Í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar er aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að um löglega aðgerð sé að ræða sem gangi ekki of langt gegn aflandskrónueigendum. Það verður því fróðlegt að sjá hvort aflandskrónueigendur muni taka þátt í útboðinu í næsta mánuði eða ákveða að taka slaginn við Seðlabankann og stjórnvöld og fara í málaferli vegna lagasetningarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert