Alvörutilboð í Jökulsárlón á leiðinni

Ólafur segir menn gera sér vel grein fyrir verðmætunum og …
Ólafur segir menn gera sér vel grein fyrir verðmætunum og möguleikunum sem felast í Jökulsárlóni. Ómar Óskarsson

Jörðin Fell í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu, sem nær að hluta yfir Jök­uls­ár­lón, var auglýst til sölu nú um helgina og segir Ólafur Björnsson, hæsta­rétt­ar­lög­maður og fast­eigna­sali hjá Lög­mönn­um á Suður­landi, áhugasama kaupendur þegar hafa sett sig í samband við sig en sýslu­maðurinn á Suður­landi fól Ólafi að selja jörðina sem verið hef­ur í opnu upp­boðsferli.

„Það voru fjárfestar hjá mér í morgun sem voru mjög áhugasamir og ég á von á tilboði frá þeim,“ sagði Ólafur. „Þá eru tveir aðrir fjárfestahópar búnir að hafa samband, þannig að ég á von á að það komi tilboð í jörðina öðru hvoru megin við næstu helgi.“

Ólafur segir eingöngu Íslendinga vera í fjárfestahópunum sem haft hafa samband. „Þetta eru bæði aðilar sem hafa komið að fasteignafélögum og annarri slíkri uppbyggingu og svo líka félag sem er í ferðaþjónustu.“

Ljóst sé að menn geri sér vel grein fyrir tækifærinu sem felist í jörðinni og þeim mikla fjölda ferðamanna sem fer þar um. „Menn vita nokkuð hver veltan er af þeirra starfsemi sem þarna hefur verið og menn hafa væntingar til að byggja þar upp.“ Nýtt deiliskipulag frá sveitarfélaginu Hornafirði sé komið í gildi og þar sé að finna margar fínar hugmyndir sem sveitarfélagið sé búið að staðfesta. „Menn sjá mikil tækifæri í þessu. Þetta er stórt land með fjölbreytta möguleika,“ segir Ólafur og nefnir bæði ísklifur og veiði sem dæmi.

„Ég á von á að menn komi dálítið hratt inn núna þegar það fréttist að það sé alvörutilboð á leiðinni. Þá koma aðrir og hafa samband því þeir vilja ekki missa af lestinni. Ég á líka von á því að ef áhugaverð tilboð koma inn þá muni sýslumaðurinn taka málið fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert